Yfir 10 þúsund gestir hafa tryggt sér miða!
· Mikill áhugi á sýningunni
· Verið að bæta starfsfólki í miðasöluna
Í morgun kl 10 hófst forsala á Billy Elliot sem verður frumsýnt 6.mars. Á hádegi höfðu yfir 10 þúsund leikhúsgestir tryggt sér miða og er augljóslega mikill áhugi á sýningunni. Forsölutilboðið er einungis í dag og er verið að bæta fólki í miðasöluna til að anna eftirspurn.
„Þetta er eiginlega fyrst raunverulegt núna að þetta sé að fara að bresta á, sérstaklega þegar maður sér hvað það er mikill áhugi á sýningunni. Það er smá fiðringur í maganum svona blanda af stressi og spennu yfir því að sjá þetta lifna við á sviðinu” Segir Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri.
Sýningin er sú stærsta sem Borgarleikhúsið hefur sett upp en 68 listamenn taka þátt í henni, það eru 33 börn, 24 fullorðnir og 11 hljómsveitarmeðlimir. Frumsýning er áætluð 6.mars. Þrír glæsilegir ungir strákar deila aðalhlutverkinu og leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson.
Verkið Billy er á leiðinni í boxtíma þegar hann lendir fyrir slysni á dansæfingu. Hann byrjar að hreyfa sig í takt við tónlistina og uppgötvar sér til furðu að þetta er ekki einungis það skemmtilegasta sem hann hefur gert heldur er hann einfaldlega fæddur til að dansa.
Billy á sér draum sem samræmist ekki hugmyndum fullorðna fólksins, hann dreymir um að verða dansari á heimsmælikvarða og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar. Billy Elliot er þroskasaga unga fólksins og hinna fullorðnu – mögnuð og falleg saga um baráttu drengs við fordóma samfélagsins og fjölskyldunnar um að fá að vera sá sem hann er. Þetta er kraftmikið verk um alvöru fólk með skotheldri og grípandi tónlist eftir Elton John, stórfenglegum hópdansatriðum og ótrúlega hæfileikaríkum dreng í aðalhlutverki sem á eftir að fá áhorfendur til að gapa af undrun..
Aðstandendur Höfundur: Lee Hall & Elton John | Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson | leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson |Tónlist: Elton John | Leikmynd: Petr Hlousek | Búningar: Helga I. Stefánsdóttir | Lýsing: Þórður Orri Pétursson | Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen| Leikarar: Baldvin Alan Thorarensen, Hjörtur Viðar Sigurðarson, Sölvi Viggósson Dýrfjörð, Halldór Gylfason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Sigurður Þór Óskarsson, Örn Árnason og fleiri.