Veisla í Borgarleikhúsinu
Þjóðin er orðin veisluþyrst og Veisla er kærkomin vökvun eftir langa þurrð. Á meðan heimsfaraldri stendur kemst þjóðin ekki í neina stóra veislu. Hugsa sér öll afmælin sem enginn getur mætt í, árshátíðirnar, útskriftarveislurnar, brúðkaupin, kóramótin og matarboðin. Að ekki sé minnst á alla óbökuðu heitu brauðréttina og kransakökurnar sem aldrei verða snæddar eða freyðivínið sem aldrei verður dreypt á úr plastglösum á völtum fæti. Þá eru ótalin löngu trúnóin við hálfókunnugar konur, slúður um valdamikið fólk, hátt spiluð lög og grillaðar pylsur á miðnætti. Þjóðin á inni risa summu í Gleðibankanum og við bjóðum áhorfendum í allt sem þeir hafa misst af í einni stórkostlegri Veislu í Borgarleikhúsinu.
Hér sameina krafta sína þau Bergur Þór Ingólfsson, þaulreyndur leikhúsmaður og Saga Garðarsdóttir, fyndlistakona, en síðast unnu þau saman við hina geysivinsælu sýningu Kenneth Mána sem frumsýnd var á Litla sviði Borgarleikhússins árið 2014. Partýpinninn Berndsen gerir tónlistina og Veisla verður því bragðgóð en görótt blanda af grínsketsum sem leikhópurinn skrifar saman og tónlist sem svarar áleitnum spurningum á borð við hvort tartalettur séu góðar í alvörunni og hversu hratt skuli ganga um gleðinnar dyr.
#veislaíborgó