Tjarnarbíó vill stækka við sig
Tjarnarbíó og SL (Bandalag sjálfstæðra leikhúsa) hafa sett af stað samfélagsmiðlaherferð til að vekja athygli á að Tjarnarbíó, heimili sjálfstæðra sviðslista og helsta sýninga- og vinnurými sjálfstætt starfandi atvinnuleikhópa, hafi ekki lengur burði til að sinna allri senunni.
Fram kemur í tilkynningu að á síðustu árum hafi sviðslistafólki fjölgað verulega á Íslandi og fjölbreytni aukist. Óperuhópar, sirkuslistahópar, uppistandshópar, dansleikhópar, improvhópar, kabaretthópar, drag-hópar og sviðlistahátíðir hafi bæst við flóruna, þar sem fyrir voru leik- og danshópar.
„Lausnin er ekki langt undan. SL og stjórn Tjarnarbíós leggja til að Reykjavíkurborg svari þessu kalli listafólks með því að leggja þeim til húsnæðið við hliðina á Tjarnarbíói, sem getur mætt öllum þörfum þessarar ört vaxandi senu, en í Tjarnarbíói starfa í um 250 atvinnusviðslistamenn á þessu leikári,“ segir í tilkynningunni.
Stærra húsnæði Tjarnarbíós myndi svara knýjandi þörf um eftirfarandi:
- Æfingaaðstaða
- Geymslupláss fyrir leikmyndir
- Skrifstofurými fyrir starfsfólk
- Stúdíórými fyrir listafólk til að þróa verk sín
- Aðstaða til leiklistarkennslu fyrir börn og fullorðna
- Bætt aðstaða fyrir leikhúsgesti
„Þessu til viðbótar er nauðsynlegt að byggja annað svið yfir þessa ört stækkandi og sí fjölbreyttari senu. Þar er hentug lausn að byggja yfir portið bak við Tjarnarbíó. Þar er kjörið rými fyrir annað svið með 100 áhorfenda sal, sem ólíkt væri hinu sviði Tjarnarbíós að stærð og lögun. Það myndi þjóna vel fjölda sviðsverka sem núverandi salur hentar illa fyrir og gera Tjarnarbíói kleift að sinna hlutverki sínu með sóma,“ segir einnig í tilkynningunni.