þrír nýir stjórnendur í Þjóðleikhúsinu
Eftir skipulagsbreytingar síðustu mánaða hafa þrír nýir stjórnendur verið ráðnir til Þjóðleikhússins.
Í tilkynningu kemur fram að störf þeirra koma í stað þriggja annarra starfa sem voru aflögð sem hluti af áherslu- og skipulagsbreytingum í leikhúsinu. Steinunn Þórhallsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins, Jón Þorgeir Kristjánsson tekur við sem forstöðumaður samskipta og markaðsmála og Kristín Ólafsdóttir tekur við nýju starfi þjónustu- og upplifunarstjóra. Þau munu koma til starfa á næstu mánuðum.
„Steinunn hefur víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri í íslensku lista- og menningarlífi. Frá 2017 hefur hún verið framkvæmdastjóri hjá RÚV þar sem hún starfaði hátt á annan áratug sem ferla- og skipulagsstjóri, verkefnastjóri umbótaverkefna, dagskrárgerðarmaður og framleiðandi. Hún var markaðs- og kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík og Íslensku óperunnar á árunum 2010-2014.
Steinunn er með meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst, B.A. gráðu í spænsku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og lagði stund á háskólanám í mannauðsstjórnun og leiðtogafræðum í Danmörku. Hún hefur kennt námskeið um stefnumótun og hlutverk menningarfyrirtækja við Háskólann á Bifröst og unnið sem ráðgjafi um stafræna umbreytingu og jafnréttismál fyrir EBU, European Broadcasting Union,“ segir í tilkynningu.
„Jón Þorgeir er með áralanga reynslu af markaðsstörfum, hönnun og leikhússtörfum. Hann er með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands. Jón Þorgeir er nú framkvæmdastjóri ÍMARK – samtaka markaðsfólks á Íslandi. Þar á undan var hann markaðsstjóri Borgarleikhússins auk þess hefur hann tekið þátt í fjölda leikhúsuppsetninga bæði hérlendis og erlendis bæði sem hönnuður og/ eða markaðssérfræðingur. Einnig hefur hann hannað og framleitt auglýsingar fyrir mörg stærstu fyrirtæki landsins.“
„Kristín Ólafsdóttir hefur gríðarlega reynslu sem þjónustustjóri, veitingamaður og ráðsmaður á Bessastöðum. Kristín er með meistaragráðu í framreiðslu, blómaskreytir og hefur einnig lokið námi í viðburðarstjórnun frá Háskólanum á Hólum. Kristín var yfirþjónn á Icelandair-hótelinu á Flúðum og Hótel KEA. Kristín var ráðsmaður á Bessastöðum í 9 ár, frá 2002-2011 og stýrði framhúsi og veitingasölu Borgarleikhússins á árunum 2013-2018. Þá hefur hún ásamt eiginmanni sínum rekið veiðihúsin við Laxá í Kjós, og síðustu ár veiðihúsin við Selá og Hofsá í Vopnafirði. Þá hefur hún einnig séð um þjónustu í Eldar-lodge, sem er í sérflokki sem hágæða gistiaðstaða fyrir erlenda ferðamenn,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu.
112 umsóknir bárust um störfin þrjú, þar af 32 í stöðu framkvæmdastjóra, 38 í starf forstöðumanns samskipta og markaðsmála og 42 í stöðu þjónustu- og upplifunarstjóra.