Þjóðleikhúsið leitar að Rómeó!
- Undirbúningur undir stórsýninguna Rómeó og Júlíu í leikstjórn Þorleifs Arnar stendur yfir í Þjóðleikhúsinu
- Ebba Katrín Finnsdóttir hefur verið ráðin í hlutverk Júlíu
- Leit stendur nú yfir að þeim leikara sem mun hreppa hið eftirsótta hlutverk Rómeós
- Leikarar á aldrinum 20-30 ára koma til greina
- Prufur framundan, skráningarfrestur til og með 12. maí
Þjóðleikhúsið undirbýr nú viðamikla uppsetningu á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Sýningin verður frumsýnd í byrjun mars 2021. Nú er unnið að mönnun sýningarinnar en einvala hópur listrænna stjórnenda hefur verið ráðinn að verkefninu við hlið Þorleifs Arnar.
Þegar þessi vinsælasta og rómaðasta ástarsaga allra tíma fer á svið ríkir jafnan mest eftirvænting eftir því hverjir veljist í hin eftirsóttu hlutverk elskendanna, Rómeós og Júlíu. Nú liggur fyrir hvaða unga leikkona mun leika Júlíu. Það er Ebba Katrín Finnsdóttir sem mun fara með það ástsæla hlutverk. Hins vegar leitar leikhúsið, með Þorleif Örn leikstjóra í fararbroddi, nú að þeim eina rétta í hlutverk Rómeós. Nú er kallað eftir umsóknum frá leikurum á aldrinum 20-30 ára sem hafa áhuga á að komast í prufu fyrir hlutverkið. Nánari lýsingu á fyrirkomulagi prufanna er að finna hér að neðan.
Einvala hópur listrænna stjórnenda við hlið Þorleifs
Þorleifur Örn Arnarsson hefur verið í hópi fremstu leikstjóra Íslendinga um árabil. Hann leikstýrði mörgum rómuðustu sýningum síðustu ára hér á landi, eins og Englum alheimsins og Njálu. Þá hefur hann notið mikillar velgengni í Evrópu og undanfarið verið einn stjórnenda hins virta leikhúss Volksbühne í Berlín. Nú í febrúar var tilkynnt um að Þorleifur gengi til liðs við Þjóðleikhúsið sem samningsbundinn leikstjóri og mun hann leikstýra einni sýningu árlega við húsið á næstu árum. Við hlið Þorleifs mun starfa einstaklega sterkur hópur listrænna stjórnenda. Ilmur Stefánsdóttir mun hanna leikmynd og Björn Bergsteinn Guðmundsson er ljósahönnuður. Þá hefur Kristján Ingimarsson verið ráðinn til sjá um kóreógrafíu í sýningunni en hann hefur vakið athygli hér á landi eins og víða um heim fyrir ævintýralegar sýningar og skemmst er að minnast BLAM sem sló í gegn hér fyrir nokkrum árum.
Ebba Katrín Finnsdóttir verður Júlía
Ebba Katrín Finnsdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli síðan hún útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands fyrir tveimur árum. Hún sýndi framúrskarandi leik í aðalhlutverki í sjónvarpsþáttaröðinni Mannasiðum á RÚV. Þá lék hún nokkur hlutverk á samningi í Borgarleikhúsinu í fyrra og á þessu leikári lék Ebba Katrín aðalhlutverkið, Uglu, í Atómstöðinni og burðarhlutverk í Þitt eigið leikrit II í Þjóðleikhúsinu.
Upplýsingar um prufur má finna á vefsíðu Þjóðleikhússins, leikhusid.is.
Þær munu fara fram dagana 18. og 19. maí.
Leikprufur – leitin að Rómeó
- Leikarar á aldrinum 20-30 ára sem hafa lokið námi í leiklist eða starfað við atvinnuleiklist koma til greina.
Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 7. maí. - Leikstjóri og listrænir stjórnendur velja ákveðinn hóp sem verður boðið að koma í prufur fyrir hlutverkið. Þar gefst þeim tækifæri til að leika tvær stuttar senur úr verkinu á móti Ebbu og öðrum leikurum undir leikstjórn Þorleifs á Stóra sviðinu. Prufurnar fara fram 18. maí
- Framhaldsprufur verða boðaðar fyrir þrengri hóp í kjölfarið.
- Þegar valið hefur farið fram verður einum leikara boðið hlutverk Rómeós. Ráðningarkjör eru venju samkvæmt í samræmi við gildandi kjarasamning FÍL við Þjóðleikhúsið.
Nánari upplýsingar veitir
Sváfnir Sigurðarson.
664 0444
svafnir@leikhusid.is