Þjóðleikhúsið frumsýnir Vertu úlfur á Stóra sviðinu
- Þjóðleikhúsið opnar á ný fyrir gestum með verki sem varpar ljósi á málefni sem láta engan ósnortinn, geðheilbrigði, fordóma, baráttu við hugann og glímuna við það að vera manneskja.
- Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstjóri skrifar einleik sem er byggður á bók Héðins Unnsteinssonar, Vertu úlfur. Eiginmaður hennar Björn Thors leikur.
- Ný lög eftir Emilíönu Torrini og Prins Póló voru samin fyrir sýninguna.
- Ákvörðun var tekin um að flytja sýninguna upp á Stóra sviðið þar sem verkið þykir mikilvægt innlegg í samfélagsmál sem eru ofarlega á baugi. Uppsetningin er sérstaklega sniðin að samkomutakmörkunum og nýtur sín vel í því samhengi.
Þjóðleikhúsið hefur sýningar á Stóra sviðinu að nýju föstudaginn 22. janúar, eftir nær fjögurra mánaða samfellt hlé vegna samkomubanns, með frumsýningu á einleiknum Vertu úlfur. Verkið er eftir Unni Ösp Stefánsdóttur sem einnig leikstýrir, og er byggt á bók Héðins Unnsteinssonar sem vakti verðskuldaða athygli og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Fjallað er hispurslaust um baráttuna við geðsjúkdóma út frá sjónarhóli manns sem í senn glímir við geðraskanir og starfar innan stjórnsýslunnar á sviði geðheilbrigðismála.
Bókin Vertu úlfur kom út árið 2015 og vakti mikla athygli. Þar fjallar Héðinn Unnsteinsson á opinskáan hátt um baráttu sína við geðrænar áskoranir eftir að hafa greinst með geðhvörf sem ungur maður. Héðinn rekur þar sögu sína; baráttumannsins sem tekst að brjótast út úr vítahringnum og nær að snúa sinni skelfilegustu reynslu upp í þann styrk sem þarf til að breyta kerfinu. Héðinn hefur um árabil starfað við stefnumótunarmál í geðheilbrigðismálum og er í dag formaður Geðhjálpar.
Listahjónin heilluðust af frásögn Héðins
Leiklistarhjónin Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors heilluðust bæði af bók Héðins. Þjóðleikhúsið fékk Unni til að skrifa einleik upp úr verkinu og leikstýra, með Björn í hlutverki. Unnur hefur einnig leitað fanga í öðrum verkum eftir Héðin, svo sem blaðagreinum, ljóðum og fyrirlestrum. Upphaflega stóð til að sýna verkið í Kassanum, enda ekki oft sem einleikir rata á Stóra sviðið, en vegna samkomutakmarkana var ákveðið að nýta tækifærið og flytja sýninguna upp á stórt svið, þar sem nýir möguleikar við sviðsetningu opnast. Þetta tækifæri hefur verið afar kærkomið í því ljósi að verkið á brýnt erindi við okkur öll, ekki síst á þeim andlega krefjandi tímum sem við nú lifum. Frumsýningu verksins var jafnframt flýtt. Uppsetningin er sérstaklega sniðin að gildandi samkomutakmörkunum.
Höfundur tónlistar í sýningunni er Valgeir Sigurðsson en auk þess semja Emilíana Torrini, í samvinnu við Markétu Irglová, og Prins Póló ný lög fyrir sýninguna, innblásin af efninu. Segja má að lögin endurspegli ólíkar hliðar geðhvarfa. Lag Emilíönu fangar hinar dekkri og viðkvæmari hliðar á meðan lag Prinsins endurspeglar oflætið. Þetta er í fyrsta sinn sem Emilíana Torrini semur lag á íslensku og texti hennar er einnig notaður í lagi Prins Póló. Valgeir Sigurðsson tónskáld á að baki farsælan feril í íslensku tónlistarlífi.
Sóttvarnir í Þjóðleikhúsinu
Þjóðleikhúsið leggur allt kapp á að gæta öryggis gesta og starfsfólks í góðu samráði við sóttvarnaryfirvöld á tímum farsóttarinnar. Við gætum vel að öllu hreinlæti og hvetjum gesti okkar til að hafa í huga eftirfarandi:
Listrænir stjórnendur:
Leikstjórn og leikgerð
Unnur Ösp Stefándsóttir
Leikmynd og myndbandshönnun
Elín Hansdóttir
Búningar
Filippía I. Elísdóttir
Lýsing
Björn Bergsteinn Guðmundsson, Halldór Örn Óskarsson
Dramatúrg
Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir
Tónlist
Valgeir Sigurðsson
Titillag
Emilíana Torrini, Markéta Irglová
Titillag, manía
Prins Póló
Texti í titillögum
Emilíana Torrini