Þetta er grín, án djóks
Þann 22. október, frumsýndi Menningarfélag Akureyrar glænýtt íslenskt verk í sviðsetningu Leikfélags Akureyrar og menningarhússins Hofs. Verkið ber titilinn Þetta er grín, án djóks og er eftir þau Halldór Laxness Halldórsson (Dóra DNA) og Sögu Garðarsdóttur.
Um er að ræða sprenghlægilegt gamanverk þar sem þau Saga og Dóri leika sig sjálf… ef þau væru kærustupar. Þau elskast, rífast, semja brandara og eru ósammála um hvort betra sé að fara til New York eða á Hornstrandir til að rækta sambandið. Dóri og Saga eru kaldhæðin, upptekin af sjálfum sér og of mikið á netinu. Það er ekkert grín að vera einstaklingur í sjálfhverfu sambandi og í samkeppni við einu manneskjuna sem skilur mann. Það eina sem þau óttast er að segja óviðeigandi brandara og verða fyrir vikið jörðuð á öllum miðlum. En hvað er óviðeigandi brandari? Er grín ekki alltaf leikur á línunni? Og hversu óviðeigandi þarf mjög fyndinn brandari að vera til að maður sleppi honum? Er grín einhvern tímann ókeypis? Meira að segja fimm aura brandarar hafa verðmiða og hvað kostaði þá Grínverjinn?
Sem fyrr segir eru það þau Saga og Dóri sem fara með aðalhlutverk sýningarinnar en auk þeirra stígur Benedikt Karl Gröndal á svið og er hann í hlutverki ákaflega misheppnaðs umboðsmanns þeirra skötuhjúa.
Jón Páll Eyjólfsson leikstýrir gríninu og þá fara betri helmingar þeirra Sögu og Dóra með mikilvægt hlutverk í sýningunni. Magnea Guðmundsdóttir, eiginkona Dóra, hannar leikmynd og búninga fyrir verkið og kærasti Sögu, tónlistarmaðurinn Snorri Helgason, á hljóðmynd og útsetningar.