Svartar fjaðrir
Nýtt dansleikhúsverk eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur byggt á ljóðum Davíðs Stefánssonar verður frumsýnt 13. maí næstkomandi.
Kraftmikil sýning sem skartar dönsurum og leikurum í fremstu röð, ásamt lifandi fuglum. Byggð á nýjustu straumum og stefnum í evrópskum samtímadansi, og kvæðum sem eru með þeim mögnuðustu sem samin hafa verið á íslenska tungu. Oft er talað um að samtímadans og leiklist eigi margt sameiginlegt, en það eiga danslistin og ljóðlistin ekki síður, enda byggja bæði listformin á hughrifum, tilfinningum, hrynjandi og flæði.
Unnið er með fjölbreytt úrval ljóða eftir Davíð Stefánsson, allt frá einmanalegum og harmþrungnum ljóðum til ástarjátninga og ættjarðarsöngva. Persónur verksins eru byggðar á ljóðum Davíðs, myndlíkingar úr kvæðum hans eru gæddar lífi á sviðinu og hughrifin sem kvæðin vekja líkömnuð af leikhópnum.
Sigríður Soffía danshöfundur hefur þróað flókið kerfi hreyfinga sem byggt er á lögmálum ljóðlistarinnar, og bygging verksins tekur mið af bragarháttum. Sum ljóðin í sýningunni verða eingöngu túlkuð í dansi, þannig að texta verður breytt í hreyfingu, en önnur verða lesin og leikin.
Leikarar og dansarar sem taka þátt í sýningunni eru þau Ásgeir Helgi Magnússon, Atli Rafn Sigurðsson, Dóra Jóhannsdóttir, Erna Ómarsdóttir, Hannes Egilsson, Ingvar E. Sigurðsson, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Oddur Júlíusson, Saga Garðarsdóttir og Sigríður Soffía Níelsdóttir.
Spennandi sýning og vandað sjónarspil með söng, leik, dansi og lifandi dúfum!
Sýningin er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Svartar fjaðrir er opnunarsviðsverk 29. Listahátíðar í Reykjavík 2015.