Styrktarsýning – Flóð
Í kvöld fer fram sérstök styrktarsýning á heimildarverkinu Flóð eftir Hrafnhildi Hagalín og Björn Thors á Litla sviði Borgarleikhússins fyrir Katrínu Björk Guðjónsdóttur.
Katrín er 23 ára Flateyrarmær. Hún fékk heilablóðfall í nóvember 2014 og aftur í júní 2015, eftir undraverðan bata. Síðan þá hefur Katrín staðið í langri og strangri endurhæfingu með hjálp fjölskyldu sinnar sem hefur verið mikið frá vinnu. BB.is greinir frá því að þess vegna hafi leikhópur og aðstandendur Flóðs viljað leggja þeim lið með styrktarsýningu þar sem allur ágóði rennur til Katrínar.
Flóð er heimildaverk byggt á snjóðflóðinu sem féll á Flateyri 1995 en á síðasta ári voru 20 ár frá því að flóðið féll. Katrín Björk Guðjónsdóttir var tveggja og hálfs árs þegar snjóflóðið féll á Flateyri 1995, en bjargaðist með undraverðum hætti ásamt fjölskyldu sinni að því er fram kemur í frétt BB. Hún er ein af þeim sem Björn og Hrafnhildur ræddu við í tengslum við vinnuna við Flóð og kemur saga hennar að hluta fram í verkinu.