Steinunn Birna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin óperustjóri Íslensku óperunnar
Steinunn Birna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin óperustjóri Íslensku óperunnar. Hún tekur við af Stefáni Baldurssyni, sem gegnt hefur starfi óperustjóra síðastliðin átta ár. Fimmtán umsækjendur sóttu um stöðuna. Steinunn Birna tekur til starfa síðar í vor.
Steinunn Birna hefur starfað sem tónlistarstjóri Hörpu frá árinu 2010. Hún er píanóleikari að mennt. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1981 og meistaragráðu frá New England Conservatory of Music í Boston í Bandaríkjunum árið 1987. Hún er stofnandi Reykholtshátíðar og var listrænn stjórnandi hennar um árabil.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir fæddist í Reykjavík og stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þaðan lauk hún einleikaraprófi á píanó áríð 1981. Kennari hennar var Árni Kristjánsson. Steinunn lauk síðan meistaragráðu frá New England Conservatory of Music í Boston árið 1987 undir handleiðslu Leonards Shure.
Steinunn starfaði um tíma á Spáni og kom þar fram sem einleikari og með ýmsum kammerhópum og hljómsveitum. Hún hefur hlotið ýmiss verðlaun og viðurkenningar fyrir leik sinn og hefur m.a. komið fram á tónleikum í Lettlandi, Sviss, Þýskalandi, Englandi, Frakklandi, Færeyjum, Bandaríkjunum og í Litháen. Hún hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum, hérlendis og erlendis bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar og einnig hefur hún komið fram á ýmsum alþjóðlegum tónlistarhátíðum. Hún lék einleik ásamt Virtuosi di Praga hljómsveitinni í Rudolphinum tónleikasalnum í Prag í júní 2008. Meðal þeirra einleiksverka sem hún hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands eru píanókonsert eftir Edvard Grieg og Slátta eftir Jórunni Viðar, en hvort tveggja hefur verið gefið út á geislaplötu. Hún hefur gert margar geislaplötur, meðal þeirra er Ljóð án orða ásamt Bryndísi Höllu Gylfadóttur sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 1998. Einnig kom út diskurinn Myndir á þili árið 2008.
Steinunn Birna er stofnandi og listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar frá 1997-2010, en hefur starfað sem tónlistarstjóri Hörpu síðan í júlí árið 2010.