Skúmaskot frumsýnt
Leiktritið Skúmaskot var frumsýnt laugardaginn 6. janúar, á Litla sviði Borgarleikhússins. Um er að ræða nýtt íslenskt leikritið spennandi og bráðfyndið fyrir krakka frá 8 ára aldri eftir Sölku Guðmundsdóttur sem var leikskáld hússins á síðasta leikári. Leikstjóri sýningarinnar er Gréta Kristín Ómarsdóttir.
Leikritið segir frá furðulegum degi sem byrjar á beljubúningi og dósaslysi í lífrænni baunabúð en endar á lífshættu í iðrum jarðar. Eftir örlagaríkt rifrildi við Völu stóru systur ákveður Rúna að elta dularfullt skilti sem lofar friði frá óþolandi ættingjum og lífi eftir eigin höfði. Fyrr en varir er hún búin að líma á sig yfirskegg og komin inn í skröltandi lyftu ásamt ókunnugri konu – niðri í Skúmaskotum bíður systranna ævintýri og þar er ekki allt sem sýnist.
Rúna verður viðskila við Völu og nú þarf hún að standa sig ein og óstudd í ógnvænlegum undirheimum þar sem undarleg dýr og hættuleg skúmaskot leynast við hvert fótmál.
Leikarar í sýningunni eru Halldór Gylfason, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir.