Skilaboðaskjóðan sýnd á Sauðárkróki
Leikfélag Sauðárkróks þurfti að bregða út af vananum þetta haustið og flytja uppsetningu haustsverkefnisins fram í Miðgarð þar sem Bifröst er ekki í standi til sýningarhalds. Framkvæmdir í húsinu hafa tafist en þar er verið að koma fyrir lyftu fyrir hreyfihamlaða.
Að þessu sinni setur félagið upp Skilaboðaskjóðuna sem er ævintýrasöngleikur byggður á samnefndri bók Þorvaldar Þorsteinssonar sem kom út árið 1986 og naut mikilla vinsælda. Söngleikurinn var frumsýndur á stóra sviði Þjóðleikhússins í nóvember árið 1993 í leikstjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur og sló í gegn. Jóhann G. Jóhannsson, tónlistarstjóri Þjóðleikhússins, samdi tónlist fyrir verkið við texta Þorvaldar og vorið 1994 kom út geisladiskur með tónlistinni í flutningi leikara og hljómsveitar leikhússins. Leikritið var aftur sett á svið Þjóðleikhússins í nóvember 2007 í leikstjórn Gunnars Helgasonar.
Sagan snýst um Putta litla sem týnist í ævintýraskóginum og að sjálfsögðu þarf að bjarga honum frá nátttröllinu. Það er þetta típýska ævintýraþema að allir þurfa að standa saman, líka stjúpan og nornin, til þess að Putti finnist. Með hlutverk Putta fer hinn ellefu ára gamli Björgvin Skúli Hauksson. Þetta er sýning fyrir alla frá tveggja ára og upp úr, mjög skemmtileg sýning fyrir fullorðna, margir fullorðnisbrandarar.
Vert er að vekja athygli á því að þar sem Miðgarður er talsvert stærri en Bifröst verða mun færri sýningar en venjulega eða alls fjórar. Frumsýning verður miðvikudaginn 12. október klukkan 18, önnur sýning á sama tíma á föstudag og svo klukkan 14 laugar- og sunnudag.
Miðasala hófst 30.september – Miðapantanir í síma 849 9434
Frumsýning verður miðvikudaginn 12.okt kl.18:00
2.sýning föstudaginn 14. okt kl. 18:00
3. sýning laugardaginn 15. okt kl. 14:00
Lokasýning sunnudaginn 16. okt kl. 14:00
Aðeins fjórar sýningar.