Sem á himni
Sem á himni er einstaklega heillandi, splunkunýr söngleikur sem leikur á allan tilfinningaskalann. Ægifögur tónlist, litríkar og skemmtilegar persónur og hrífandi saga hafa nú þegar heillað fjölda áhorfenda erlendis, og nýjar uppsetningar á verkinu eru væntanlegar víða.
Verkið gerist í litlu samfélagi á landsbyggðinni þar sem allir þekkja alla, og hver hefur innsýn í annars gleði og sorgir. Þegar heimsfrægur hljómsveitarstjóri, á hátindi ferils síns, sest óvænt að í þorpinu til að draga sig út úr skarkala heimsins þykir ýmsum tilvalið að fá hann til að stýra kirkjukórnum. Þessi maður á sér sársaukaþrungin leyndarmál, en þegar tónlistin fer að óma af nýjum og áður óþekktum krafti í litla samfélaginu byrjar að losna um margt og lífið tekur óvænta stefnu. Hrífandi og átakamikil saga um hin sönnu verðmæti í lífinu, gildi vináttunnar og ástina.
Gríðarstór hópur listafólks tekur þátt í uppsetningunni, alls um 40 manns, þar af tólf manna hljómsveit. Í aðalhlutverkum verða þau Elmar Gilbertsson, Salka Sól, Valgerður Guðnadóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hinrik Ólafsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir.
Elmar Gilbertsson hefur sungið aðalhlutverk í virtum óperuhúsum og tónleikasölum víðs vegar um Evrópu, og hefur tvívegis hlotið Grímuverðlaunin og Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngvari ársins. Meðal leikstjórnarverkefna Unnar Aspar eru hinar geysinsælu sýningar Vertu úlfur og söngleikurinn Mamma Mia!
Söngleikurinn Sem á himni er byggður á geysivinsælli samnefndri sænskri bíómynd sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna árið 2004.