Samt koma jólin!
Aðventuvagn Þjóðleikhússins kemur með jólin til þín
- Farandleikhópur Þjóðleikhússins ferðast með skemmtidagskrá í desember
- Heimsækir dvalarheimili, heimili eldri borgara og aðra staði þar sem fólk er innilokað vegna kórónuveirufaraldursins
- Eitt fjölmargra samfélagslegra verkefna Þjóðleikhússins til að gleðja og veita andlegan innblástur á tímum samkomutakmarkana
Þjóðleikhúsið bryddar upp á ýmsum skemmtilegum nýjum verkefnum á meðan sýningarhald liggur niðri vegna kórónuveirufaraldursins, til að gleðja landsmenn og stytta biðina þar til leikhúsið getur opnað á ný. Eitt þessara verkefna er „Samt koma jólin“, aðventuvagn Þjóðleikhússins sem ferðast um og færir fólki jólaandann.
Hópur listamanna Þjóðleikhússins keyrir um á sérútbúnum bíl og heimsækir staði þar sem fólk býr við einangrun vegna faraldursins. Fyrir utan húsin er flutt tuttugu mínútna skemmtidagskrá sem yljar og hlýjar á erfiðum tímum. Sungin eru jólalög úr ýmsum áttum, flutt eru jólakvæði og stuttur leikþáttur. Dagskrárinnar má njóta utan húss, á svölum og úr gluggum, en henni verður jafnframt streymt fyrir þá sem ekki geta komið út, og geta þeir þá notið hennar af skjám innan dyra um leið og hún fer fram.
Listrænn stjórnandi verkefnisins er Örn Árnason og með honum í för eru leikararnir Baldur Trausti Hreinsson, Bjarni Snæbjörnsson, Gunnar Smári Jóhannesson, Hákon Jóhannesson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Tónlistarflutningur er í höndum Karls Olgeirs Olgeirssonar. Guðmundur Erlingsson er umsjónarmaður verkefnisins.
Leikhúsbíllinn heimsækir meðal annars dvalarheimili, hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðir og félagsmiðstöðvar aldraðra. Meðal þeirra staða sem þegar hafa þegið boð um heimsókn eru Eir, Hrafnista í Hafnarfirði, dvalarheimilið við Norðurbrún, Seltjörn á Seltjarnarnesi, Seljahlíð í Breiðholti, Skógarbær í Árskógum, Hamrar í Mosfellsbæ, Sléttan, Droplaugarstaðir, Borgir í Spönginni og Gerðuberg. Velkomið er að senda óskir um heimsókn á netfangið gudmundure@leikhusid.is og Þjóðleikhúsið reynir eftir föngum að verða við þeim. Stálsmiðjan-Framtak og Jón Snorrason bílstjóri leggja Þjóðleikhúsinu lið við að flytja jólaskemmtunina á milli staða.