RaTaTam rýfur þögnina
RaTaTam er nýr leikhópur sem samanstendur af leikurum, bæði nýútskrifuðum sem og reyndum sem höfum hafist handa í að vinna leiksýningu byggða á reynslusögum fólks sem eru aðstandendur, þolendur eða gerendur í heimilisofbeldi.
Sameiginlegur áhugi fólksins í hópnum um baráttu gegn heimilisofbeldi dró hann saman og vill hópurinn leggja sinn metnað, tíma og kunnáttu í þetta mikilvæga og þarfa verkefni til að rjúfa þá þrúgandi þögn sem ríkir yfir heimilisofbeldi. Hópurinn rannsakar líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn, konum, körlum og börnum, innan veggja heimilisins. Frásagnir gerenda, þolenda og aðstandenda verða þar í brennidepli en í byrjun árs óskuðum við eftir fólki sem tilbúið væri að deila sögu sinni. Á stuttum tíma hefur fjöldinn allur af fólki haft samband við okkur, karlar og konur sem þolendur, gerendur og aðstandendur úr öllum stéttum, stöðum og af báðum kynjum.
RaTaTam vilja nýta sér aðferð og tækni við leiksýningu sem áður hefur ekki mikið verið notuð á Íslandi. Aðferðin kallast verbatim og virkar þannig í stuttu máli að raunverulegt fólk og frásagnir eru notaðar beint og óritskoðaðar í leiksýningu. Leikarinn líkir eftir öllum smæstu einkennum fólksins sem segja sína sögu t.d rödd, hreyfingum, kækjum og andardrætti til að ná fram sem sönnustu mynd af manneskjunni og hennar reynsluheimi. Sögunum er síðan blandað saman við tækni og tól leikhússins og frekari efnivið sem leikhópurinn sankar að sér í heimildarvinnu um málefnið t.d úr fréttum, rannsóknum, fjölmiðlum og samfélagslegri umræðu. Það mætti því segja að sýningin sé samin bæði af leikhópnum, fólkinu sem deilir sér og sinni sögu og samfélaginu öllu.
Á þessum stutta tíma sem þau hafa unnið að verkefninu hefur það vakið mikla athygli sem þau telja koma til vegna skorts á umræðu um málefni sem samfélagið hefur þörf á að ræða. Leikhópurinn vonar af öllu hjarta að þið séuð tilbuin að gefa verkefninu meðbyr svo það geti orðið að veruleika og raddir þessa fólks fái að heyrast – RaTaTam vill rjúfa þögnina með ykkar hjálp.
Áætlaðar sýningar á verkinu verða á leikárinu 2015-2016 og óska þau eftir stuðningi þínum til að halda áfram verkefni okkar fyrir baráttunni gegn heimilisofbeldi.
Söfnunina má finna hér á Karolina Fund: https://www.karolinafund.com/project/view/968