Ragnheiður
Íslenska óperan frumsýndi síðastliðið vor glænýja óperu eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson í Eldborg. Sýningin sló rækilega í gegn og hlaut tíu tilnefningar á Grímuverðlaununum í vor. Gunnar Þórðarson hlaut síðan Grímuverðlaunin fyrir Tónlist ársins 2014, Elmar Gilbertsson var valinn Söngvari ársins 2014 og sýningin sjálf var valin Sýning ársins 2014. Í ljósi þessara miklu vinsælda verður efnt til tveggja aukasýninga á Ragnheiði um jólin 2014 með sömu söngvurum í öllum hlutverkum.
Óperan fjallar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur, biskupsdóttur í Skálholti á 17. öld, ástarsamband hennar við lærimeistara sinn Daða Halldórsson og fordæmingu föður hennar, Brynjólfs biskups Sveinssonar, á því sambandi. Eins og frægt er, var Ragnheiður neydd til þess að sverja eið þess efnis að hún hefði ekki átt í holdlegu sambandi við Daða né nokkurn annan mann. Níu mánuðum eftir eiðtökuna ól hún svo sveinbarn þeirra Daða. Efni þetta hefur áður orðið ýmsum listamönnum viðfangsefni. Einna frægust er skáldsaga Guðmundar Kamban, Skálholt, og samnefnt leikrit hans.
Sýningin er tæpar þrjár klukkustundir að lengd, með hléi. Tuttugu mínútna hlé er eftir fyrsta þátt.
Hlutverkaskipan
Ragnheiður Brynjólfsdóttir: Þóra Einarsdóttir
Brynjólfur Sveinsson: Viðar Gunnarsson
Daði Halldórsson: Elmar Gilbertsson
Sr. Sigurður Torfason: Jóhann Smári Sævarsson
Helga Magnúsdóttir: Elsa Waage
Ingibjörg Magnúsdóttir: Guðrún J. Ólafsdóttir
Sr. Hallgrímur Pétursson: Bergþór Pálsson
Sr. Torfi Jónsson: Ágúst Ólafsson
Þórður Þorláksson: Björn Ingiberg Jónsson
Listrænir stjórnendur
Hljómsveitarstjóri: Petri Sakari
Lýsing: Páll Ragnarsson
Búningar: Þórunn S. Þorgrímsdóttir
Leikmynd: Gretar Reynisson
Leikstjóri: Stefán Baldursson
Kór og hljómsveit Íslensku óperunnar