Póst-Jón
Póst-Jón er íslensk staðfæring Óðs á gamanóperunni Le postillon de Lonjumeau eftir franska tónskáldið Adolphe Adam sem var frumsýnd í París árið 1836 við gríðarlegan fögnuð áhorfenda. Hún hefur síðan þá ekki notið þeirra vinsælda sem hún á skilið en hún gerir grín að óperuforminu á hátt sem aðeins sönnum óperuunnanda gæti tekist. Óperan fjallar um póstmanninn Jón sem býðst skyndilega að flytjast til Danmerkur til að gerast óperusöngvari en þarf þá fyrirvaralaust að yfirgefa eiginkonu sína Ingibjörgu sem hann gekk að eiga fyrr sama dag. Tíu árum síðar hittast þau aftur í Kaupmannahöfn með ófyrirséðum afleiðingum.
Nánd við áhorfendur og potað í óskrifaðar reglur
Sviðslistahópurinn Óður neitar að geyma óperur í glerkössum. Þau vilja miklu frekar taka þær upp, hrista af þeim rykið og leika sér að þeim, pota í óskrifaðar reglur og skemmta sér og öðrum. Þau trúa á nálægð við áhorfendur og einlæga túlkun á tungumáli sem áhorfendur skilja. Fyrsta sýning þeirra, Ástardrykkurinn, sló rækilega í gegn og fylgdu því efir með frábærri sýningu á Don Pasquale.
Óður er Listhópur Reykjavíkur 2024 og er sýningin styrkt af Reykjavíkurborg.