Peter Grimes
Óperan Peter Grimes eftir Benjamin Britten var frumflutt á Íslandi síðastliðinn föstudag, 22. maí í Eldborg í Hörpu. Tónleikauppfærslan er samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar, Hörpu og Listahátíðar í Reykjavík. Tvær erlendar stórstjörnur úr heimi óperunnar sungu aðalhlutverkin í þessari mögnuðu óperu, Stuart Skelton í titilhlutverkinu og Judith Howarth í hlutverki Ellen Orford, ásamt tíu íslenskum einsöngvurum, Kór Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Peter Grimes er talin ein allra merkasta ópera 20. aldarinnar og er reglulega á fjölum helstu óperuhúsa heims þó hún sé ekki frumflutt hérlendis fyrr en nú. Óperan segir frá ógæfu skipstjórans Peter Grimes. Ungir piltar sem Grimes ræður sér til aðstoðar týna lífinu hver á eftir öðrum og er honum í kjölfarið afneitað af bæjarbúum, með átakanlegum afleiðingum.
Ástralski tenórinn Stuart Skelton, sem var valinn Söngvari ársins á International Opera Awards árið 2014, syngur titilhlutverkið. Hann hefur túlkað Peter Grimes víðsvegar um heim og hlotið mikið lof fyrir, og var tilnefndur til hinna virtu Olivier-verðlauna fyrir túlkun sína við ENO, Ensku þjóðaróperuna. Með hlutverk Ellen Orford fer Judith Howarth, en þau Skelton hafa sungið hlutverkin saman í ENO. Í öðrum hlutverkum voru Ólafur Kjartan Sigurðarson sem Balstrode, Hanna Dóra Sturludóttir, Hallveig Rúnarsdóttir, Lilja Guðmundsdóttir, Snorri Wium, Viðar Gunnarsson, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Garðar Thór Cortes, Oddur Arnþór Jónsson og Jóhann Smári Sævarsson. Daníel Bjarnason er hljómsveitarstjóri, en sviðssetning er í höndum Kolbrúnar Halldórsdóttur, útlit hannar Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir og lýsingu annast Páll Ragnarsson.