Opið hús í Borgarleikhúsinu
Allir eru velkomnir á opið hús í Borgarleikhúsinu laugardaginn 29. ágúst á milli kl. 13 og 16. – og að sjálfsögðu er ókeypis aðgangur.
Í forsal leikhússins verður fjölbreytt tónlistardagskrá ásamt Línu Langsokk og Herra Níels sem munu skemmta. Veislustjóri er Kenneth Máni. Vignir Þór Stefánsson og félagar spila, Þrjár basískar stíga á svið, fram koma Brynhildur Guðjónsdóttir, Jóhann Sigurðsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Hundur í óskilum – auk þess sem ýmsar óvæntar uppákomur verða því leikhúsið getur sprottið fram alls staðar!
Atriði úr Billy Elliot og Blæði frá Íslenska dansflokknum verða á stóra sviðinu. Opnar æfingar á Sókrates, Öldinni okkar, Hystory og Ati. Skoðunarferðir verða reglulega yfir daginn og verður fólk leitt um króka og kima þessa stærsta leikhúss landsins. Þar verður baksvið skoðað, búningageymslur, æfingasalir, förðunardeild, smíðaverkstæði og margt fleira.
Opið hús er orðinn fastur liður í menningarlífi Reykvíkinga. Siðurinn hófst þegar Leikfélag Reykjavíkur flutti í Borgarleikhúsið fyrir 20 árum síðan og hefur verið haldið í heiðri nær óslitið síðan. Borgarbúar kunna að meta daginn og flykkjast í leikhúsið til að kynna sér verkefni vetrarins. Aðsókn að Opnu húsi hefur alltaf verið góð og þúsundir manna flykkst í Borgarleikhúsið.