Nýtt og glæsilegt leikár Þjóðleikhússins opinberað | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Nýtt og glæsilegt leikár Þjóðleikhússins opinberað

    • Fjölbreyttar og kynngimagnaðar sögur, glænýr söngleikur og kraftmikil ný íslensk verk áberandi. 
    • Leikhússkóli Þjóðleikhússins hefur göngu sína, öflugt fræðslustarf og spennandi sýningar fyrir börn og ungt fólk. Byltingarkenndu opnu kortin hittu í mark. 
    • Verðlaunaverkin sem slógu í gegn á síðasta leikári halda áfram göngu sinni fyrir fullu húsi.

    Nýtt leikár Þjóðleikhússins er nú hafið, fjölbreytni í verkefnavali er gríðarlega mikil og leikhúsgestir eiga sannarlega mikla leikhúsveislu í vændum. Leikárið einkennist ekki síst af fjölda nýrra íslenskra verka auk þess sem óvenju margar sýningar frá síðasta leikári eru enn á fleygiferð. Stormur er glænýr söngleikur eftir Unni Ösp og Unu Torfa, sýning sem lætur hjartað ólmast með magnaðri tónlist og undurfögrum augnablikum. Leikstjóri er Unnur Ösp Stefánsdóttir. Eltum veðrið er gleðileikur með söngvum úr smiðju listafólks Þjóðleikhússins sem mun sannarlega kitla hláturtaugarnar. Jólasýning Þjóðleikhússins er Yerma í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Verkið er byggt á samnefndu meistaraverki Lorca en atburðarásin er flutt til nútímans á meistaralegan hátt.  

    Heim er nýtt leikrit eftir Hrafnhildi Hagalín, eitt okkar virtasta leikskáld, í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Taktu flugið, beibí! er eftir Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur og fjallar um baráttu hennar fyrir framtíð, sjálfstæði og réttindum sem manneskja með líkamlega skerðingu. Ilmur Stefánsdóttir leikstýrir. Blómin á þakinu er nýtt íslenskt barnaleikrit byggt á dásamlegri bók Ingibjargar Sigurðardóttur og Brians Pilkington í leikstjórn Agnesar Wild.  

     
    Sýningarnar sem slógu í gegn á síðasta ári, Frost, Orð gegn orði og Grímusýning ársins, Saknaðarilmur, verða áfram á fjölunum. Aðventusýningin vinsæla Jólaboðið birtist nú á Stóra sviðinu og sprúðlandi leikhópur leikhússins tekur að sér ný hlutverk í sýningunni. Eftirlætis aðventusýning barnanna, Lára og Ljónsi, verður á Litla sviðinu. Pólsk gestasýning, Sjóndeildarhringurinn/Widnokrąg verður sýnd í september, með íslenskum og enskum texta og stórskemmtilega samstarfssýningin Sund í leikstjórn Birnis Jóns Sigurðssonar kemur á svið með vorbirtunni. Í Hádegisleikhúsinu verður nú boðið upp á Heimsókn eftir Hildi Selmu Sigbertsdóttur.  

    Leikhúskjallarinn iðar af lífi 

    Í Kjallaranum kraumar í suðupottinum og þegar lokið er tekið af spretta fram nautnaseggir, grínistar, stórsöngvarar, spunameistarar, dragdrottningar og öll þau sem vilja hlæja hátt. Á rauðu ljósi, einleikur Kristínar Þóru, heldur áfram að stressa áhorfendur en fyrst og fremst gleðja, en uppselt var á yfir 50 sýningar á síðasta leikári. Improv Ísland stendur vaktina á miðvikudögum með óborganlegum spunasýningum sínum. Grínkjallarinn er spennandi nýjung þar sem úrvalslið íslenskra uppistandara mun brillera á fimmtudagskvöldum. Kjallarakabarettinn lýsir upp svartasta skammdegið á föstudögum. Sviðslistahópurinn Óður býður upp á bráðfjörugar gamanóperur í návígi. Skíthrædd er tragíkómískur söngleikur eftir Unni Elísabetu Gunnarsdóttur sem deilir hér persónulegum sögum úr lífi sínu. REC Arts mun bjóða upp á vinnusmiðjur og standa fyrir House of Revolution fjölmenningarkvöldum fjórum sinnum í vetur. 

    Nýr leikhússkóli, fjölbreytt barnastarf  – og byltingarkenndu Opnu kortin 

    Þjóðleikhúsið heldur áfram að auka við öflugt fræðslustarf sitt. Nýr Leikhússkóli hefur verið settur á laggirnar en þar munu nemendur á aldrinum 18 – 22 ára öðlast reynslu í öllu sem viðkemur leikhúsinu. Hinn óviðjafnanlegi Orri óstöðvandi og vinkona hans Magga Messi munu gleðja börn um land allt í nýrri sýningu sem Vala Fannell leikstjóri byggir á bókum Bjarna Fritzsonar. Einnig verður leikskólabörnum boðið á sýningar á Ég get.  

    Byltingarkennda nýjungin sem kynnt var í fyrra með Opnum kortum þar sem ungt fólk getur séð eins mikið og þau vilja fyrir 1.450 kr á mánuði, sló í gegn og heldur áfram.  Eigandi kortsins getur séð allar sýningar leikhússins eins oft og viðkomandi vill.  

    Kraftmikið höfundastarf – ný leikritahátíð, Guli dregillinn 

    Ný íslensk verk og frumsköpun hefur einkennt Þjóðleikhúsið á undanförnum árum og mikil áhersla er lögð á að efla íslenska leikritun. Við aukum framboð og stuðning við höfunda með því að setja af stað nýja leikritahátíð, Gula dregilinn. Þar verða þrjú glæný og spennandi leikrit frumflutt með leiklestri af stjörnuteymi leikara á glæsilegri vorhátíð sem nefnist Guli dregillinn og fagnar íslensku leikhúsi og skáldunum sem skrifa fyrir sviðið. Auk þess opnar leikhúsið vinnustofu höfunda, þar sem höfundar fá aðstöðu og aðstoð við leikritaskrif.  

    “Við erum full tilhlökkunar fyrir nýju leikári sem kemur í kjölfar eins aðsóknarmesta vors í Þjóðleikhúsinu um árabil. Á leikárinu verða settar á svið fjölbreyttar sögur sem eiga eftir að hreyfa við okkur á ýmsan hátt. Unga fólkið kemur eins og stormsveipur inn á Stóra sviðið með nýjan söngleik sem fær hárin til að rísa. Fjörugar barnasýningar bjóða næstu kynslóð velkomna og ögrandi sögur um samtíma okkar,  fjölskylduna og mennskuna munu snerta okkur og hrífa. Hlátrasköll berast neðan úr Kjallaranum þar sem kraumar í suðupottinum. Með vorinu efnum við til hátíðar sem tileinkuð er list leikskáldsins – því nýjar sögur eru framtíðin. Svo má ekki gleyma rómuðu sýningunum sem halda áfram frá fyrra ári, Grímusýningin Saknaðarilmur, stórsöngleikurinn Frost, áleitni einleikurinn Orð gegn orði og gleðiuppistandið Á rauðu ljósi,” segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.



    loading

    Takk fyrir að skrá þig!