Ný áskriftarleið fyrir ungt fólk í ætt við Spotify og Netflix
Þjóðleikhúsið mun á næstu dögum kynna glænýja áskriftarleið fyrir ungt fólk á aldrinum 15 – 25 ára sem veitir þeim aðgang að öllum sýningum leikhússins á leikárinu, eins oft og hver vill á mun lægra verði en áður hefur þekkst í leikhúsum hérlendis. Um er að ræða áskriftarform í ætt við þá sem þekkist hjá Spotify, Netflix, Storytel og sambærilegum veitum þar sem greitt er mánaðargjald gegn ótakmarkaðri notkun. Verðinu er mjög stillt í hóf, en fyrir aðeins 1.450 kr. á mánuði býðst ungu fólki að sjá allar sýningar leikhússins eins og oft og það kýs.
Stjórnendur leikhússins segja að þetta sé byltingarkennd leið til að opna leikhúsið enn frekar fyrir ungu fólki en í þeim hópi er stór hópur leikhúsunnenda en fyrir marga er verðið hár þröskuldur. Með fastri áskrift í tíu mánuði býðst áskrifendum að tryggja sér miða samdægurs, eins oft og hugurinn girnist. Með þessari leið vill Þjóðleikhúsið tryggja að dyr leikhússins verði galopnaðar fyrir ungu fólki, en verð á leiksýningar hefur reynst vera helsta hindrunin í að þessi hópur sæki leikhús.
Þjóðleikhúsið mun afhjúpa fjölbreytt og metnaðarfullt, nýtt leikár í næstu viku og þá hefst sala á nýju opnu kortunum samhliða sölu hefðbundinna áskriftarkorta. Á komandi leikári mun Þjóðleikhúsið einnig kynna fjölmargar aðrar nýjungar sem miða að því að opna leikhúsið enn frekar, t.a.m. verður 7.sýning hvers verks textuð á íslensku og ensku.