Nashyrningarnir snúa aftur
Nashyrningarnir snúa aftur á Stóra svið Þjóðleikhússins. Aðeins verður um fáeinar sýningar að ræða í nóvember og desember. Ef þú misstir af Nashyrningunum þá skaltu ekki hika að tryggja þér miða í þetta sinn.
Seiðmagn nýrra hugmynda, hjarðhegðun og eilíf barátta mennskunnar við að lifa af
Hin ferska og fjöruga útfærsla Benedikts Erlingssonar og leikhópsins á þessu skemmtilega verki vakti gífurlega hrifningu á síðasta leikári og hlaut einróma lof. Tveir leikarar, þau Hilmir Snær Guðnason og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, voru tilnefndir til Grímuverðlaunanna fyrir leik sinn í sýningunni.
Eitt frægasta verk Ionescos
Hversdagslegt lífið í litlum bæ umturnast þegar íbúarnir taka að breytast í nashyrninga, hver af öðrum. Allir nema hlédrægur skrifstofumaður sem er gagnrýndur af vinnufélögunum fyrir óstundvísi, óreglu og frjálslegt líferni. Hvers vegna er það einmitt bara hann sem reynir að spyrna við fótum og halda í mennskuna?
Nashyrningarnir eru eitt frægasta verk hins heimsþekkta fransk-rúmenska leikskálds Ionescos. Leikritið er sett upp reglulega víða um heim, enda spyr það enn áleitinna og ögrandi spurninga.