Miðasala hafin á Þetta er Laddi
Sýningin Þetta er Laddi er ævisöguleikrit á borð við Elly og Níu líf og í sýningunni fáum við að sjá Ladda hitta á sviðinu persónur á borð við Eirík Fjalar, Elsu Lund, Dengsa og Skrám. Laddi og helstu gamanleikarar Borgarleikhússins leika í sýningunni auk þess sem hljómsveit undir stjórn Jóns Ólafssonar mun spila í sýningunni.
Hver er Laddi? Og hvaðan kemur húmorinn sem hefur verið samofinn húmor heillar þjóðar í bráðum hálfa öld? Í þessari sýningu verður skyggnst inn í kollinn á Ladda, uppruni gamalkunnra persóna kannaður, þróun íslensks gríns sett undir smásjá og lyklar að manninum sjálfum á bak við grínið dregnir fram – en fyrst og fremst verður hlegið – og þakkað fyrir alla gleðina. Óborganleg sýning um óborganlegan mann sem fyrir löngu er orðinn þjóðargersemi og almannaeign.
Leikstjórinn og handritshöfundurinn Ólafur Egill hefur löngum sótt í íslenskan veruleika og sett upp hverja verðlaunasýninguna á fætur annarri þar sem hann kryfur samtímann og segir sögur þjóðarinnar. Nægir þar að nefna Níu líf og Ástu sem hann skrifaði og leikstýrði, og Elly sem hann skrifaði ásamt Gísla Erni Garðarssyni. Hér fær hann leikkonuna og handritshöfundinn Völu Kristínu Eiríksdóttur til liðs við sig í handritsskrifin og býður svo Þórhall Sigurðsson, sjálfan Ladda, velkominn í sófann ásamt fremstu gamanleikurum Borgarleikhússins.