Marat/Sade
Bæling og losti, kúgun og uppreisn, hinir jaðarsettu gegn valdinu! Marat/Sade, öðru nafni Ofsóknin og morðið á Jean Paul Marat sýnt af vistmönnum geðveikrahælisins í Charenton undir stjórn De Sade markgreifa, er eitt af öndvegisverkum 20. aldarinnar – marglaga og margslungið í efni og formi. Verkið, sem er eftir þýska leikskáldið Peter Weiss, var fyrst frumsýnt árið 1963 og hefur frá upphafi verið umdeilt og vakið sterk viðbrögð. Hér er leikrit inni í leikriti – vistmenn geðveikrahælisins í Charenton setja á svið verk undir stjórn hins alræmda markgreifa De Sade.
De Sade er einnig höfundur leikritsins og sjálfur vistmaður á hælinu. Verkið hverfist um frönsku byltinguna og er þrungið átökum og andstæðum sem endurspeglast í hinum týndu sálum hælisins. Í uppfærslu Lab Loka og Borgarleikhússins á þessu kraftmikla leikriti verður til mögnuð sýning þar sem Nýja sviðið fyllist af mörgum dáðustu en jafnframt elstu listamönnum íslensku þjóðarinnar en þau yngstu eru um sjötugt og þau elstu fast að níræðu. Hér er óhætt að lofa einstakri upplifun og sjónarspili sem seint gleymist.
Verkefnið er stutt af Reykjavíkurborg og Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, bæði úr sviðslistasjóði og launasjóði sviðslistafólks.