Listin að lifa
Leikfélag Selfoss hefur nú heldur betur slegið í klárinn eftir að hafa látið lítið fyrir sér fara síðustu tvö ár vegna framkvæmda við leikhúsið. Haustsýning leikfélagsins er leikritið Listin að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Jónheiðar Ísleifsdóttur. Æfingar hófust um miðjan september og hafa gengið vel, mikil gleði er í leikhópnum og stjórn leikfélagsins bíður spennt eftir að sýna afraksturinn en frumsýning er áætluð föstudaginn 25. október.
Verkið fjallar um vinina Dúu, Duddu og Didda og er þeim fylgt gegnum lífið nánast frá vöggu til grafar með öllu því sem líf þeirra hefur upp á að bjóða í blíðu og stríðu. Fimm leikarar eru í uppsetningunni og spanna breitt aldursbil, koma úr ýmsum áttum og eru sumir að stíga sín fyrstu skref meðan aðrir hafa mikla reynslu með leikfélaginu.
Leikfélag Selfoss mun með gleði bjóða áhorfendum aftur í Litla leikhúsið við Sigtún eftir nokkra bið í lok október að sjá þessa stórskemmtilegu sýningu. Nóg verður svo um að vera í vetur því framundan er önnur sýning eftir áramót auk ýmissa minni viðburða. Hægt er að fylgjast með æfingaferlinu og öðrum viðburðum leikfélagsins á facebooksíðu félagsins og á instagramsíðu félagsins.