Lífið
Lífið er stórskemmtilegt drullumall á mörkum leikhúss og myndlistar fyrir alla fjölskylduna. Sýningin vann tvenn Grímuverðlaun á síðasta leikári, “Barnasýning ársins 2015” og “Sproti ársins 2015”.
Leikhúsið 10 fingur, sem stendur að þessari sýningu, setti upp verðlaunasýninguna Skrímslið litla systir mín og hlaut einnig Grímuverðlaunin sem besta barnasýning ársins 2012.
Leiksýningin fjallar um sköpunarkraftinn, vináttu og hringrás lífsins, þar sem unnið er með mold. Á einu plani er verið að búa til sögu um sköpun heimsins, hvernig landslag breytist í gegnum hamfarir og kraft náttúruafla, hvernig líf kviknar, hvernig fyrstu dýrin skriðu á land og goggunarröðina í náttúrunni – en á öðru plani má lesa úr þessari sömu leiksýningu einfalda sögu af tveimur krökkum að leik. Börnum sem uppgötva skugga sinn og sjálfa sig, finna mold í pokum og fara að drullumalla.
Aðstandendur
Það eru Charlotte Böving sem leikstýrir, Helga Arnalds hannar myndræna hlið verksins og leikarar eru Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Tónlist semur Margrét Kristín Blöndal og lýsingu hannar Björn Bergsteinn Guðmundsson. Höfundar eru Sveinn Ólafur Gunnarsson og Sólveig Guðmundsdóttir, Charlotte Böving og Helga Arnalds.
Verkið er styrkt af Leiklistarsjóði og listamannalaunum