Leiksýning á Rifi og frí gisting
MAR er nýtt íslenskt leikverk úr smiðju Frystiklefans í Rifi. Verkið er byggt á tveim sjóslysum sem urðu við strendur Snæfellsness á síðustu öld. Fyrra slysið átti sér stað í febrúar 1962 þegar togarinn Elliði sökk út af Öndverðarnesi. Í áhöfninni voru 28 manns. 26 björguðust. Síðara slysið gerðist í júlí 1997 þegar trillan Margrét hvarf ásamt tveim mönnum. Báðir voru þeir héðan úr bæjarfélaginu okkar. Slysin eru nátengd okkar samfélagi og margir heimamenn tóku þátt í björgunaraðgerðum.
Fyrirhugaðar voru fjórar sýningar á verkinu en vegna gríðargóðra viðtaka og mikillar eftirspurnir urðu sýningarnar 10 talsins yfir hátíðarnar. Nú er svo komið að við höfum ákveðið að halda sýningum áfram um helgar í janúar. Þar sem ekki stendur til að koma með þessa sýningu til Reykjavíkur hefur Frystiklefinn ákveðið að bjóða þeim áhorfendum sem vilja, ókeypist gistingu í húsinu. Þetta er gert til að koma til móts við ferðakostnað gesta og veita þeim í senn tækifæri til að gera sér góða helgarferð um Snæfellsnes, sem er ægifagurt á þessum árstíma.
Texti verksins er byggður á viðtölum við aðila sem tengjast slysunum og raunverulegum upptökum frá talstöðvasamskiptum á neyðarbylgju útvarpsins. Hér er um að ræða algjörlega einstaka gerð heimildar, sem aldrei hefur verið nýtt í íslensku leikhúsi áður.
Leikarar sýningarinnar eru þau Kári Viðarsson og Freydís Bjarnadóttir, sem segir sína eigin sögu í verkinu. Leikstjóri er Árni Grétar Jóhannson.
Þetta nýja leikverk verður mikilvæg viðbót við sagnaarf Íslendinga. Markmið verksins er að dýpka skilning áhorfenda á þeim afleiðingum sem slík stórslys hafa í för með sér á sjó og í landi.