Leikhúsmál – nýtt hlaðvarp
Hlaðvarp Kómedíuleikhússins, Leikhúsmál, er komið í loftið. Hlaðvarp þar sem fjallað verður um leiklistina á breiðum grunni. Um er að ræða vikulega þætti sem fara í loftið á fimmtudegi hverrar viku. Umsjónarmaður Leikhúsmála er Elfar Logi Hannesson og upptakari er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Leikhúsmál eru tekin upp í nýstandsettu hljóðveri Kómedíuleikhússins sem er til húsa í Leiklistarmiðstöð Kómedíunnar á Þingeyri.
Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, hefur komið sér upp hljóðveri. Hið ný opnaða hljóðver er til húsa í Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins á Þingeyri. Er hið kómíska hljóðver öllum nauðsynlegum tækjum búið til upptöku á töluðu máli. Það var byggðaverkefnið Öll vötn til Dýrafjarðar sem styrkti uppsetningu hljóðversins.
Kómedíuleikhúsið hefur í gegnum árin gefið út fjölda hljóðbóka sem eru allar aðgenilegar á streymisveitunni Storytel. Alls eru hljóðbækurnar nú orðnar 23 talsins. Kómedíuleikhúsið hefur ávallt þurft að fara af bæ til að taka upp þessar hljóðbækur og hefur því vitanlega fylgt gífurlega mikill aukakostnaður. Það er því alveg ljóst að hljóðver Kómedíuleikhússins er einstaklega kærkomið og næsta víst að áframhald verður á hljóðbókaútgáfu Kómedíuleikhússins fyrir Storytel og það frá Þingeyri.
Í fyrsta þætti Leikhúsmála er hlaðvarpið kynnt og fjallað um fyrsta leiklistartímaritið sem hét einmitt, Leikhúsmál.