Leikfélag Akureyrar auglýsir eftir fósturverkefnum
Leikfélag Akureyrar auglýsir nú eftir verkefnum frá sviðslistafólki til að verða fósturverkefni Leikfélags Akureyrar. Þau sviðslistaverkefni sem verða fyrir valinu, munu verða hluti leikársins 2018-2019.
Aðspurður segir Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri LA að: “eitt af markmiðum LA er að rækta hæfileika ungs sviðslistafólks í frumsköpun, að vera gróðurhús fyrir hugmyndir, staður þar sem draumar rætast. Rödd ungs fólks er mikilvæg og skapa þarf tækifæri fyrir unga listamenn til að eiga stefnumót við áhorfendur”. Hann sagði ennfremur að LA vilji að spurningum og rannsóknum borgaranna sé veittur skapandi vettvangur í leikhúsinu og að þeim markmiðum vilji leikfélagið ná með Gróðurhúsi LA. Umsóknir um fósturverkefni þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Verkefnið verður að vera frumsamið sviðslistaverkefni og umsækjendur eða efnistök skulu hafa sterka tengingu við Norðurland.
Umsækjendur verða að vera atvinnumenn í sviðslistum og auk þess er listrænum stjórnendum falið að gæta umhverfissjónarmiða við sviðsetningu. Kynjahlutöll skulu vera sem jöfnust innan verkefnisins. Aðstandendur þeirra verkefna sem veljast í Gróðurhús LA fá aðstoð við skipulagningu og verkefnastjórnun. Þeir fá aðstoð við kynningu á verkefninu og veitir MAk því sýningar og æfingaraðstöðu í Samkomuhúsinu. Jafnframt er veittur aðgangur að tæknibúnaði, leikmuna- og búningasafni og aðstoð frá miðasölu, framhúsi og tæknideildum.
“Það er okkar von að Gróðurhús LA verði til þess að búa frumsköpuðum sviðlistaverkefnum vettvang til þess að verða að veruleika og listamönnum að eiga stefnumót við áhorfendur. Þannig styðjum við sviðslistahópa og einstaklinga á svæðinu með því að gefa þeim tækifæri á að koma frumsköpun sinni á framfæri án þess að greiða aðstöðuleigu.” segir Jón Páll. Hann telur að þannig stuðli Leikfélag Akureyrar að uppbyggingu öflugrar sviðslistamenningar og rækti samband sitt við grasrótarstarf á starfssvæðinu.
Tekið er á móti umsóknum á vef MAk til 31. október.