Konungur ljónanna
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri færir ykkur söng- og dansleikinn Konung ljónanna, sem byggður er á samnefndri kvikmynd frá árinu 1994.
Aðalpersónan í söngleiknum er Simbi, fjörugur ljónsungi, sem einn daginn á að taka við hlutverki föður síns sem konungur ljónanna. En valdagræðgi föðurbróður hans veldur því að Simbi hrökklast burt frá heimaslóðunum, tekur upp kæruleysislegan lífsstíl og gleymir framtíðarhlutverki sínu. Sýningin er fyrir alla aldurshópa enda er þetta saga og tónlist sem flestir þekkja. Leikfélag Menntaskólans á Akureyri hefur undanfarin ár sett upp stórar leiksýningar sem hafa slegið hvert aðsóknarmetið á fætur öðru. Þetta er ein stærsta uppsetning leikfélagsins frá upphafi. Föngulegur hópur menntskælinga hefur lagt allt sitt í að gera sýninguna að veruleika.
Leikstjóri er Vala Fannell en hún kemur alla leið frá London til að stjórna uppsetningu á þessu skemmtilega verki. Sýningin einkennist af söngi og dansi ásamt mikilli ástríðu og leikgleði.
Sýningin hefur hlotið góðar viðtökur á Akureyri og nú hyggst leikfélagið setja sýningu upp í Reykjavík, í fyrsta sinn í langan tíma.