Improv Ísland á Menningarnótt
Improv Ísland sýnir sextán spunasýningar í röð á átta klukkutímum í Þjóðleikhúskjallaranum á Menningarnótt. Á hálftíma-fresti verður ný sýning búin til og sú sýning verður aldrei aftur endurtekin.
Á hverri sýningu verður endurraðað í leikhópinn og unnið með ólík lang-spunaform eins og Haraldinn, Söngleik spunnin á staðnum (við undirleik Karls Olgeirssonar ) og Martröð leikarans með sérstökum gestum úr leikhúsum landsins.
Leikhópurinn Improv Ísland stendur að viðburðinum og endurtekur leikinn frá því síðustu Menningarnótt þegar færri komust að en vildu og því er lengd spuna-maraþonsins tvöfölduð frá því í fyrra.
Leikhópurinn á Menningarnótt samanstendur af í kringum 40 spunaleikurum sem hafa æft og sýnt langspuna síðustu misseri undir leiðsögn Dóru Jóhannsdóttur en hún hefur lært aðferðina síðustu ár hjá Upright Citizen´s Brigade (UCB) í New York.