Hvítt
Hvítt er leikandi létt og afar sjónræn sýning fyrir börn frá 1 til 5 ára og fullkomin sem fyrsta reynslan af leikhúsinu. Hún er lærdómur um litina fyrir börnin en áminning um litróf mannlífsins og fjölmenningarsamfélagið fyrir okkur foreldrana.
Hvítt (White) var frumsýnd á Edinborg Fringe leiklistarhátíðinni árið 2010 af Catherine Wheels leikhúsinu og fékk gagnrýnendaverðlaun hátíðarinnar. Árið eftir var hún sýnd á alþjóðlegri leiklistarhátíð Assitej í Kaupmannahöfn og Malmö og var einnig tekin til sýninga á West End í London, á Broadway í New York og í Los Angeles. Verkiðhefur verið sýnt um allan heim og farið til Norður og Suður Ameríku, Evrópu, Asíu og Ástralíu og er núna í sýningum í Skotlandi, Frakklandi, Mexíkó og Bandaríkjunum. Leikritið hefur fengið fjölda viðurkenninga.
Hvítt er framleidd í samstarfi við Catherine Wheels leikhúsið í Skotlandi, Góða Gesti, Hafnarfjarðarbæ og Mennta og Menningarmálaráðuneytið.
Áhorfendur er boðnir velkomnir á stað þar sem allt er hvítt. Þetta er heimur sem glitrar, glansar og skín á nóttunni og er fullur af fuglasöng og fuglahúsum. Heimurinn er bjartur, skipulagður og hvítur, En uppi í trjánum er ekki allt hvítt. Litirnir birtast. Fyrst rauður….svo gulur …svo blár.
Leikstjóri er Gunnar Helgason og leikarar eru María Pálsdóttir og Virginia Gillard.