Hvað sem þið viljið
- Margir okkar flinkustu gamanleikarar blása nýju lífi í ógleymanlegar persónur Shakespeares
- Karl Ágúst Úlfsson þýðir og skrifar nýja og léttleikandi leikgerð a einum skemmtilegasta gamanleik skáldsins en Ágústa Skúladóttir leikstýrir
- Í þriðja sinn sem verkið fer á fjalirnar en það var fyrst sýnt árið 1951 og aftur árið 1995
Fimmtudaginn 12. janúar frumsýnir Þjóðleikhúsið í Kassanum, Hvað sem þið viljið, eftir William Shakespeare, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Leikarar eru þau Almar Blær Sigurjónsson, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Hilmar Guðjónsson, Kristjana Stefánsdóttir, sem semur einnig tónlist verksins, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Þórey Birgisdóttir. Karl Ágúst Úlfsson þýðir verkið og skrifar leikgerðina ásamt leikstjóranum.
Hvað sem þið viljið, sem heitir á frummálinu, As you like it, er nú sett upp í þriðja sinn í Þjóðleikhúsinu en það rataði mjög snemma á fjalirnar, eða strax á 2. leikári leikhússins árið 1951. Þá var það í leikstjórn Lárusar Pálssonar og bar titillinn Sem yður þóknast í þýðingu Helga Hálfdánarsonar. Árið 1995 var það sýnt í leikstjórn Guðjóns Pedersen og aftur í þýðingu Helga.
Ný léttleikandi leikgerð í fjörugri og litríkri sýningu
Ágústa Skúladóttir leikstjóri er þekkt fyrir fjörugar, litríkar og heillandi sýningar, og nú hefur Karl Ágúst Úlfsson endurort texta skáldsins á léttleikandi nútímamál í nýrri leikgerð sem er full af húmor og brotin upp af stórskemmtilegri tónlist. Margir okkar flinkustu gamanleikarar blása nýju lífi í ógleymanlegar persónur Shakespeares.
Þessi galsafulla gleðisýning færir okkur skemmtilegasta gamanleik Shakespeares í splunkunýjum búningi, þar sem möguleikar leikhússins eru nýttir á frjóan og ævintýralegan hátt og list leikarans er í forgrunni.
Veröldin er leiksvið!
Elskendurnir ungu Rósalind og Orlandó neyðast til að flýja, hvort í sínu lagi, undan ofsóknum. Þau hrekjast út í skógana miklu, þar sem þeirra bíða kostuleg ævintýri meðal annarra útlaga.
Leikstjórn og leikgerð
Ágústa Skúladóttir
Þýðing og leikgerð
Karl Ágúst Úlfsson
Tónlist og tónlistarstjórn
Kristjana Stefánsdóttir
Leikmynd og búningar
Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing
Jóhann Bjarni Pálmason
Hljóðhönnun
Brett Smith