Hamskiptin
Rómuð sýning Vesturports snýr enn á ný í Þjóðleikhúsið eftir sigurgöngu vítt og breitt um heiminn. Einstakt tækifæri!
Hamskiptin er ein rómaðasta sýning Vesturports og hefur verið sýnd víða um heim og fengið frábærar viðtökur. Hún var frumsýnd í Lyric Hammersmith leikhúsinu í London árið 2006 og í kjölfarið endurfrumsýnd í Þjóðleikhúsinu, og hlaut þá Grímuverðlaunin sem leiksýning ársins.
Hamskiptin eftir Franz Kafka er ein af þekktustu skáldsögum 20. aldarinnar. Leiksýningin er í senn ógnvekjandi og fyndin en í verkinu segir frá sölumanninum Gregor Samsa, sem vaknar upp einn morguninn í líki risavaxinnar bjöllu. Líf hinnar hversdagslegu Samsafjölskyldu breytist á svipstundu í einkennilega martröð.
Hamskiptin er mögnuð leikhúsupplifun þar sem leikmynd Barkar Jónssonar og lýsing Björns Helgasonar skapa einstæðan heim á leiksviðinu, og leikhópurinn fer á kostum undir seiðandi tónlist Nicks Cave og Warrens Ellis.
★★★★★
The Guardian, Michael Billington
Áfangastaðir á ferð Hamskiptanna um heiminn:
London – Reykjavík – London – Liverpool – Manchester – Birmingham – Newcastle – Plymouth – London – Seoul í Suður-Kóreu – Dublin – Hong Kong – Hobart í Tasmaníu – Wollongong í Ástralíu – Sydney – Bogotá í Kólumbíu – Reykjavík – New York – Malmö – St. Pétursborg – Norilsk í Rússlandi – Osló – Barcelona – München – Calgary í Kanada – London – Washington – Boston – Osló – Toronto – Osló – Reykjavík