Guð blessi Ísland var frumsýnd á föstudaginn í Borgarleikhúsinu
Föstudagskvöldið 20. október var sýningin Guð blessi Ísland frumsýnd á Stóra sviði Borgarleikhússins, en þetta var fyrsta frumsýning leikársins á því sviði. Leikritið er eftir þá Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson, en sá síðarnefndi er einnig leikstjóri sýningarinnar. Þeir félagar sameina krafta sína á ný í þessu verki eftir einstaklega vel heppnaða sviðsetningu á Njálu í Borgarleikhúsinu fyrir tveimur árum. Þar var tilurð sjálfsmyndar Íslendinga rannsökuð. Nú mun greining á íslenskri þjóðarsál halda áfram. Eins og í Njálu verður öllu tjaldað til: Tónlist, dans, myndlist, leikur og sprell.
Sýningin þóttist takast einkar vel og voru viðbrögð áhorfenda í salnum mikil, bæði á meðan á sýningu stóð og ekki síst eftir sýninguna þegar leikurum og listrænum stjórnendum var fagnað lengi vel með standandi lófataki.
Leikarar í sýningunni eru Aðalheiður Halldórsdóttir, Arnmundur Ernst Björnsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Halldór Gylfason, Hilmar Guðjónsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Örn Árnason.
Á Íslandi ríkir borgarastyrjöld. Búsáhaldabyltingin er hafin. Uppreisnarfólk stendur fyrir framan Alþingi og lemur potta og pönnur. Sigurinn er vís – vanhæf ríkisstjórn fellur. Í miðjum átökunum á Austurvelli samþykkir Alþingi að hrinda af stað rannsókn um orsakir hrunsins. Skýrsla kemur út í apríl 2010. Hún er yfirgripsmikil – en um fram allt æsispennandi, líkust reyfara sem varla er hægt að leggja frá sér. Þar er flett ofan af vafasömum viðskiptum ofurhetja íslenska bankakerfisins og ótrúlegum samskiptum æðstu embættismanna þjóðarinnar lýst. Lygileg samtöl lifna við – ólíkindaleg samskipti eiga sér stað. Þetta var partý aldarinnar. Þetta var siðlausasta skeið í sögu þjóðarinnar. Þetta var eitt mesta hneyksli í fjármálasögu Evrópu fyrr og síðar!
Áhorfendum er boðið í partý aldarinnar þar sem öllu verður tjaldað til og engum hlíft í ofsafenginni leit að sannleikanum – eða hvað? Af hverju fór allt til fjandans? Hvernig getur siðferði fólks brostið á þennan hátt? Hvernig er hægt að ræna heila þjóð öllu sem hún á? Og hvar stöndum við nú? Búum við í hinu nýja landi sem vonir stóðu til eftir hrunið? Hefur eitthvað breyst?