Góða ferð inn í gömul sár
ATHUGIÐ – Verkið er upplifunarverk í tveimur hlutum.
Fyrri hluti er í formi hljóðverks sem hefst kl. 18:30 – nánari upplýsingar eru sendar í tölvupósti til gesta eftir miðakaup.
Seinni hluti verksins hefst kl. 20:00 í Borgarleikhúsinu.
Góða ferð inn í gömul sár er nýtt verk eftir Evu Rún Snorradóttur sem var annað af leikskáldum Borgarleikhússins á síðasta leikári. Hér er á ferðinni stórmerkilegt upplifunarleikhús þar sem Eva Rún kafar í HIV faraldurinn sem geisaði hér á níunda og tíunda áratug síðustu aldar með viðtölum og heimildasöfnun. Áhorfandanum er boðið í ljóðrænt en magnað ferðalag gegnum heimsfaraldur sem, ólíkt þeim sem nýverið geisaði, var sveipaður skömm og þaggaður niður. Fyrri hluti sýningarinnar er hljóðverk sem gestir hlusta á í einrúmi en í síðari hluta er boðið á Nýja svið Borgarleikhússins þar sem lífinu er fagnað um leið og leitað er leiða til að heila sárin.
HIV faraldurinn á Íslandi hefur í raun ekki verið gerður upp í listheiminum og fórnarlamba hans ekki minnst með sambærilegum hætti og annarra sem látið hafa lífið af völdum sjúkdóma eða náttúruhamfara. Þetta er þó að breytast í nýjum heimi þar sem jaðarsettir hópar eru loksins að öðlast rödd. Samfélagslegt mikilvægi þess að geta litið söguna sem og samtímann með nýjum gleraugum nýrra tíma verður seint ofmetið.