Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist
Leikfélag Akureyrar frumsýnir 5. október
Ný íslensk og æsispennandi fjölskyldusýning sem sýnir kunnuglegar og áður óþekktar þjóðsagnapersónur á nýstárlegan og skemmtilegan hátt
Í Hringvallaskóla opnast fyrir algjöra slysni gátt inn í heim íslenskra þjóðsagna. Saklausum sjöundabekking, Jóni Árnasyni er í kjölfarið rænt af Húmskollunni skelfilegu svo bekkjarsystkini hans Sóley og Bjartur leggja upp í háskaför honum til bjargar. Við tekur æsispennandi atburðarás þar sem hinar ýmsu kynjaverur íslenskra þjóðsagna koma fyrir, Nykur, Skoffín og Skuggabaldur ásamt fleirum. Ná þau að bjarga Jóni Árnasyni? Er Nykrinum treystandi? Hver á augun í myrkrinu? Hver er þessi Húmskolla? Er einhver leið að komast lifandi aftur til mannheima?
Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist er nýtt íslenskt barnaleikrit úr smiðju Umskiptinga, í leikstjórn Agnesar Wild og stútfullt af skemmtilegri tónlist eftir norðlenska dúóið Vandræðaskáld. Verkefnið hlaut styrk Leiklistarráðs og listamannalaun. Samstarf Menningarfélags Akureyrar og Umskiptinga.
Höfundar: Leikhópurinn UmskiptingarLeikstjórn: Agnes Wild
Leikarar: Hjalti Rúnar Jónsson, Jenný Lára Arnórsdóttir, Jóhann Axel Ingólfsson, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason
Tónlist: Vandræðaskáld
Leikmynd og búningar: Auður Ösp Guðmundsdóttir
Sviðshreyfingar: Katrín Mist Haraldsdóttir
Ljósahönnun: Lárus Heiðar Jónsson
Sýningin er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneyti – Leiklistarráði