FULLKOMIÐ BRÚÐKAUP Á FLJÓTSDALSHÉRAÐI
Leikfélag Fljótsdalshéraðs ákvað síðla sumars að taka áhættu og hefja æfingar á leikriti í miðju veirufári. Fyrir valinu varð hinn vinsæli farsi Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon. Hinn margreyndi Guðjón Sigvaldason var ráðinn sem leikstjóri. Guðjón kom austur í september og hafa æfingar gengið vel og Covid-19 ekki truflað þær. Æfingar eru nú á lokametrunum og frumsýnt verður laugardaginn 31. október á Iðavöllum. Aðeins verða 20 áhorfendur í salnum á hverri sýningu vegna sóttvarnareglna. Áhorfendarými er aðskilið frá rými leikara og tæknihóps í samræmi við sóttvarnareglur. Grímur hafa tengst leiksviðinu í gegnum tíðina en að þessu sinni verða allir áhorfendur í leikhúsinu með grímur og á barnum verður boðið upp á spritt með kaffinu.
Sýningar verða með takmörkuðum fjölda áhorfenda í sal og óvíst hvað tekst að sýna margar sýningar. Í ráði er hinsvegar að sýningin verði einnig í boði í stofum landsmanna, þar sem hægt verður að kaupa aðgang að sýningunni á netinu. Þeir sem vilja sjá leikritið á netinu geta sent póst á leikfelagfljotsdalsherads@gmail.com til að panta sér aðgang.