Frumsýning – Flóð
Fimmtudaginn 21.janúar kl 20 frumsýnir Borgarleikhúsið á Litla sviðinu heimildaverkið Flóð eftir Hrafnhildi Hagalín og Björn Thors í leikstjórn Björns Thors. Leikarar eru þau Kristbjörg Kjeld, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Jensson og Kristín Þóra Haraldsdóttir.
Árið 1995 féll stórt snjóflóð á bæinn Flateyri á Vestfjörðum. Flóð er heimildaverk byggt á þessum atburðum. Á síðasta ári voru 20 ár liðin frá því að flóðið féll og vill Borgarleikhúsið minnast atburðanna sem mörkuðu djúp spor í þjóðarsálina á sínum tíma. Þátttakendur í sýningunni rannsaka og rifja upp atburði, spyrja spurninga og raða saman brotum frá þessari örlagaríku nótt 26. október árið 1995. Við fáum innsýn í sögur fólksins í þorpinu, þeirra sem lentu í flóðinu og þeirra sem stóðu utan við það, björgunarmanna og barnanna sem voru of ung til að muna atburðarásina en lifðu eftirmála flóðsins og ólust upp við umtalið og þögnina sem fylgdi í kjölfarið. Verkið er byggt á nýlegum viðtölum við Flateyringa og unnið í nánu samstarfi við þá.
Flóð er áhrifamikið nýtt íslenskt heimildaverk um mikilvægi þess að varðveita söguna fyrir börnin okkar og framtíðina, um samstöðu og samheldni og það sem skiptir raunverulegu máli í lífinu. Hrafnhildur Hagalín (1965) er leikskáld og listrænn ráðunautur Borgarleikhússins. Hún hefur sent frá sér leikrit um áratugaskeið og hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Björn Thors (1978) er margverðlaunaður leikari. Hann var meðhöfundur að verkinu Kenneth Máni sem sló rækilega í gegn í Borgarleikhúsinu á síðasta leikári. Flóð er hans fyrsta leikstjórnarverkefni við Borgarleikhúsið.
Aðstandendur Höfundur: Hrafnhildur Hagalín og Björn Thors | leikstjóri: Björn Thors | Leikmynd & búningar: Snorri Freyr Hilmarsson | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson| Tónlist & hljóð: Garðar Borgþórsson | Leikarar: Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Jensson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Kristbjörg Kjeld.