Fólk, staðir og hlutir
Lífið er ekki nógu ávanabindandi
Búðu þig undir að verða kippt með í ferðalag þar sem engin leið er að átta sig á hvað er satt og hvað logið. Þessi magnaða sýning hlaut frábæra dóma á síðasta leikári og snýr nú aftur á Litla sviðið í takmarkaðan tíma.
Leikkonan Emma er alkóhólisti og lyfjafíkill sem fellst loks á að fara í afvötnun á meðferðar-stofnun eftir klúður á sviði. Þótt hún virðist öll af vilja gerð til að takast á við vandamálið kraumar harðsvíraður fíkill undir niðri – sem ekkert er heilagt. Emma er heillandi, klár og meinfyndin og velgir því meðferðarfulltrúum sínum verulega undir uggum enda er fíkillinn meistari í lygum.
Fólk, staðir, hlutir er eftir breska leikskáldið og leikstjórann Duncan Macmillan og gekk fyrir fullu húsi á West End í London árið 2015. Það er nístandi lýsing á meðferð frá upphafi til enda þar sem aðalpersónan gengur í gegnum allar þær vítiskvalir sem slíkri meðferð fylgja. Efniviðurinn er áleitinn enda stendur hann mörgum nærri þar sem fjallað er um fíknimeðferð á nýstárlegan, áhrifamikinn en um leið grátbroslegan hátt. Um leið er þessari áleitnu spurningu varpað fram: Komumst við vímulaus af í þessum geggjaða heimi?
Í samstarfi við Vesturport og Þjóðleikhúsið í Osló.