Fjalla – Eyvindur og Halla
Þjóðleikhúsið frumsýnir þann 26. mars á Stóra sviðinu eitt magnaðasta verk íslenskra leikbókmennta, Fjalla–Eyvind og Höllu eftir Jóhann Sigurjónsson, í uppsetningu Stefan Metz.
Sögur af útilegumanninum Fjalla-Eyvindi og hinni stórlyndu ástkonu hans, Höllu, sem uppi voru á átjándu öld hafa lifað góðu lífi með íslensku þjóðinni allt fram á okkar daga. Leikrit Jóhanns Sigurjónssonar er átakamikið og grípandi, skrifað af næmum mannskilningi og býr yfir mikilli harmrænni dýpt.
Halla er efnuð ekkja sem ræður Eyvind til sín sem vinnumann. Þau verða ástfangin og þegar Eyvindur neyðist til að flýja til fjalla, vegna saka úr fortíðinni, ákveður Halla að fara með honum. Inni á hálendi Íslands bíður þeirra hatrömm barátta við hörð náttúruöfl, einsemd, útskúfun og ofsóknir. En ekki síður þurfa þau að glíma við eigin tilfinningar og takast á hvort við annað. Getur ást þeirra staðið af sér þessa þolraun?
Uppsetning Stefans Metz á Eldrauninni eftir Arthur Miller hér í Þjóðleikhúsinu á liðnu leikári vakti mikla hrifningu. Metz setti hér upp á sínum tíma Krítarhringinn í Kákasus, og hefur leikstýrt fjölda verka í leikhúsum víða um Evrópu.
Með hlutverk elskendanna fara Stefán Hallur Stefánsson og Nína Dögg Filipusdóttir. Aðrir leikarar í sýningunni eru Esther Talía Casey, Kristinn Óli Haraldsson, Oddur Júlíusson, Pálmi Gestsson, Ragnheiður Steindórsdóttur, Sigurður Sigurjónsson, Steinn Ármann Magnússon, Tinna Gunnlaugsdóttir og Þórhallur Sigurðsson.