Ferðabók Gísla Einarssonar (en hvorki Eggerts né Bjarna)
Aulahúmor og útúrsnúningar af öllu landinu
Uppistandssýningin „Ferðabók Gísla Einarssonar (en hvorki Eggerts né Bjarna)“ verður frumsýnd á Sögulofti Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi laugardaginn 14. janúar. Forsagan er sú að árið 1752 fengu vísindamennirnir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson styrk frá danska ríkinu til að rannsaka jarðfræði Íslands, sögu, mannlíf og menningu. Síðan eru liðin mörg ár og margt breyst. Í sýningunn fer hinn víðförli Gísli Einarsson yfir rannsóknarniðurstöður þeirra Eggerts og Bjarna og uppfærir og leiðréttir eftir því sem við á (samt ekki síður þar sem það á ekki við)!
Um sýninguna segir í tilkynningu: „Að baki þessari sýningu liggur gríðarleg vinna en það er þó þekkt í gegnum mannkynssöguna að þótt miklum tíma sé varið í ákveðin verkefni þá getur niðurstaðan samt verið ömurleg. Í rannsóknum Gísla er nefnilega kastað til höndum eins og mögulegt er og vinnubrögð í alla staði óvönduð. Iðulega er líka ómaklega vegið að einstaklingum, hópum og jafnvel heilu landshlutunum. Það skal þó tekið fram að markmiðið með sýningunni er alls ekki að hæðast að fólki og lítilsvirða eða ofbjóða áhorfendum með dónaskap. Hins vegar er svo sem ekkert gert til að koma í veg fyrir að það geti gerst.“
Höfundur er Gísli Einarsson og meðhöfundar þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson.
Fram koma í sýningunni: Gísli Einarsson og Ferðabók Eggerts og Bjarna.