Er ég mamma mín?
Tvær sögur – eða alltaf sama sagan?
Einn daginn neitar húsmóðirin að leika hlutverk sitt og hættir að sinna heimilinu. Hún fer í verkfall, leggur niður störf og leirtauið safnast upp. Hvernig tekst heimilisfólki að aðlagast breyttum hlutverkum kynjanna og nýjum valdahlutföllum? Verkið er fjölskyldusaga sem sögð er á tveimur mismunandi tímabilum með áherslu á áhrif hverrar kynslóðar á þá næstu og samskipti hjóna í blíðu og stríðu. Er hægt að brjótast undan hlutverkunum? Eða verður þú alltaf mamma þín?
María Reyndal hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem höfundur og leikstjóri. Kvenfélagið Garpur, sem setur upp verkið í samstarfi við Borgarleikhúsið, hefur áður vakið athygli fyrir Mannasiði og Sóleyju Rós, ræstitækni sem hlaut fimm Grímutilnefningar og tvenn Grímuverðlaun árið 2017 fyrir leikrit ársins og leikkonu ársins í aðalhlutverki. Mannasiðir var páskamynd RÚV 2018 og hlaut 4 Eddutilnefningar og var valið besta leikna sjónvarpsefni ársins 2018.
Kristbjörg Kjeld hlaut Grímuverðlaun fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki í Er ég mamma mín? á Grímuverðlaunahátíðinni 2020.
Verkið er styrkt af Leiklistarráði, Starfslaunasjóði listamanna og Reykjavíkurborg.