Endatafl
Föstudaginn 1. maí verður Endatafl eftir Samuel Beckett frumsýnt í Tjarnarbíó í þýðingu Árna Ibsens. Leikstjóri verksins er Kristín Jóhannesdóttir, Sigurður Pálsson er dramatúrg. Búninga sér Þórunn María Jónsdóttir um og förðun er í höndum Kristínar Thors. Leikarar eru Þorsteinn Backmann, Þór Tulinius, Harpa Arnardóttir og Stefán Jónsson.
Fjórar persónur lokaðar inni í byrgi. Eru þetta endalok jarðlífsins? Það er augljóst að mikið liggur undir. Allt lífið.
„Það er fátt jafn hlægilegt og óhamingjan. Hún er það hlægilegasta í heiminum,“ segir ein þeirra. Í þessu tragíkómíska verki Samuels Beckett eru harðstjórn og undirgefni í stöðugu samspili.
Spyrja má hvort taflmennska Becketts felist ekki í því að horfast í augu við smákónginn og þrælinn sem leynist innra með honum sjálfum og reyndar hverjum og einum. Þess vegna snertir þetta verk okkur öll.
Endatafl er annað frægasta leikrit Nóbelskáldsins írska, Samuels Beckett, tvímælalaust eins áhrifamesta leikskálds tuttugustu aldarinnar. Hitt verkið er Beðið eftir Godot.
Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík.