Ellen B.
Spennuþrungið, eldfimt og einstaklega vel skrifað verk sem talar beint inn í samtíma okkar
Stórviðburður í evrópsku leikhúsi: Heimsfrumsýning á fyrsta verkinu í splunkunýjum þríleik Mariusar von Mayenburg í leikstjórn verðlaunaleikstjórans Benedicts Andrews, leikmynd og búningar eftir hina virtu Ninu Wetzel.
Mögnuð leikaraveisla
Unnur Ösp Stefánsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir og Benedikt Erlingsson fara með hlutverk þriggja persóna sem hittast eina kvöldstund í heimahúsi. Samskiptin snúast fljótt upp í martraðarkennda viðureign, með grimmilegum ásökunum á báða bóga, þar sem enginn er óhultur og sannleikurinn smýgur stöðugt undan. Undir liggja ágengar spurningar um valdajafnvægi og trúnaðartraust í nánum samböndum, mörkin milli atvinnu og einkalífs, lygina og sannleikann – og ásakanir, hvort sem þær eru falskar eða sannar, eða málin flóknari en svo.
Erlent listafólk í fremstu röð gengur til liðs við Þjóðleikhúsið
Þjóðleikhúsið stendur fyrir stórviðburði í íslensku leikhúslífi á Stóra sviðinu – heimsfrumsýningu á glænýjum þríleik eftir Marius von Mayenburg, sem talinn er eitt merkasta núlifandi leikskáld Evrópu. Hinn heimsþekkti leikstjóri Benedict Andrews leikstýrir tveimur verkanna, Ellen B. og Ex, á leikárinu 2022-23 og Marius von Mayenburg mun sjálfur leikstýra því þriðja, Alveg sama, haustið 2023. Nina Wetzel gerir leikmynd og búninga fyrir þríleikinn. Það er mikill fengur fyrir íslenska leikhúsgesti og listafólk að fá þetta virta leikhúslistafólk til samstarfs. Leikritin eru framúrskarandi vel skrifuð og fjalla um ástina og valdið í samtímanum, nútímafólk og nándina, af nístandi hreinskilni og kolsvörtum húmor. Bitastæð hlutverkin eru öll í höndum stórleikara.
Benedict Andrews hefur sett upp rómaðar og margverðlaunaðar sýningar í virtustu leikhúsum heims, meðal annars í Þýskalandi, Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum. Í leikhúsi, óperu og kvikmyndum hefur hann leikstýrt heimsfrægu listafólki og á Íslandi er hann áhorfendum að góðu kunnur fyrir Grímuverðlaunasýningarnar Lé konung og Macbeth.
Marius von Mayenburg er eitt stórvirkasta og beittasta leikskáld Evrópu í dag. Verk hans hafa verið þýdd á fleiri en þrjátíu tungumál og sett upp í leikhúsum víða um heim, auk þess sem hann hefur leikstýrt eigin verkum og annarra. Hann starfaði lengi sem dramatúrg við hið virta leikhús Schaubühne í Berlín í heimalandi sínu, Þýskalandi og hefur sett þar upp leiksýningar. Leikrit hans Sá ljóti, Stertabenda, Bæng! Og Eldfés hafa verið leikin hér á landi.
Nina Wetzel er einn eftirsóttasti leikmynda- og búningahöfundurinn á meginlandi Evrópu um þessar mundir. Hún hefur starfað með leikstjórum í fremstu röð og unnið fyrir virt leikhús, óperuhús og leiklistarhátíðir víða um lönd. Hún er einn af nánustu samverkamönnum Thomasar Ostermeier við Schaubühne-leikhúsið.