Ekki hætta að anda
Fimmtudaginn 15. janúar nk. kl. 20:00 frumsýnir leikhópurinn Háaloftið í samstarfi við Borgarleikhúsið nýtt leikverk eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Leikstjóri er Stefán Jónsson.
Sagan
Fjórar konur bregðast við auglýsingu þar sem leitað er að þeim sem hafa þekkt Hákon heitinn náið en honum er lýst sem ,,meðalmanni á hæð með ljósar krullur.” HANN eða hinn látni hefur sjálfur sett saman lagaval fyrir eigin jarðarför, m.a. Don ́t Hold your Breath eða Ekki hætta að anda með Nicole Scherzinger sem veldur mönnum nokkrum heilabrotum. Jafnframt hefur hann óskað sérstaklega eftir að konurnar fjórar flytji íslenska útgáfu af laginu við athöfnina með texta sem þjóni hlutverki minningarorða. Eftir því sem verkinu vindur fram kemur í ljós að það er ýmislegt málum blandið varðandi samband kvennanna við hann.
KONA 2: Maður hélt einhvern veginn að Hákon væri undantekningin…og dæi ekki..
KONA 4: Ótrúlegt, svona maður á besta aldri…Eða þannig séð..
KONA 1: Var þetta brátt andlát eða…?
KONA 2: Brátt og ekki brátt. Það fer eftir því hvernig á það er litið.
Auður Ava Ólafsdóttir hefur áður skrifað þrjú leikrit, Svartur hundur prestsins (2011) og Svanir skilja ekki (2014) sem Þjóðleikhúsið setti upp og útvarpsleikritið Lán til góðverka (2014). Þar að auki er hún höfundur fjögurra skáldsagna og einnar ljóðabókar. Skáldsaga Auðar Övu, Afleggjarinn, hefur verið þýdd á tuttugu og tvö tungumál.
Aðstandendur: Höfundur: Auður Ava Ólafsdóttir | Leikstjóri: Stefán Jónsson | Tónlist: Árni Rúnar Hlöðversson | Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir | Lýsing: Þórður Orri Pétursson | Leikarar: Tinna Hrafnsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Elma Lísa Gunnarsdóttir.