Eitur í Borgarleikhúsinu
Hvað áttu eftir stærsta missi lífs þíns?
Áfallið sem sprengdi hjónabandið eltir þau eins og skuggi. Hann fór til Frakklands og hóf nýtt líf. Hún var um kyrrt í húsinu þeirra og hefur reynt að aðlaga sig sorginni. Tíu árum eftir skilnað hittast þau aftur við óvæntar aðstæður. Fortíðin nagar og óuppgerðir hlutir líta dagsins ljós og sumum tilfinningum verður ekki lýst með orðum. Þau dansa á hárfínni línu afbrýðisemi, söknuðar, væntumþykju, biturðar og kraumandi ástríðna. Og í sameiningu þurfa þau nú að taka afdrifaríka ákvörðun.
Hilmir Snær og Nína Dögg takast á við kyngimögnuð hlutverk í margverðlaunuðu leikriti um sorgina í ástinni í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Eitur er hollenskt leikrit sem hefur farið sigurför um heiminn undanfarinn áratug og verið þýtt á yfir tuttugu tungumál. Leikskáldið Lot Vekemans skrifar af óvenjulegri skarpskyggni um sameiginleg örlög tveggja einstaklinga sem gera úrslitatilraun til að sættast við fortíðina.