Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti
,,Eina sem ég get gert er að velja: kveljast, eða hætta þessu og taka í hendina á einhverjum gaur í Mikka Mús búning í Disneylandi og trúa honum og treysta fyrir sorgum mínum og sigrum meðan hann svitnar í múnderingunni.
Maður á barmi sálræns hengiflugs vegna fjölskylduaðstæðna, efnahags- og tilvistalegrar krísu, ræðst á tilgangsleysi lífsins. Líf sem einkennist af efnishyggju samtímans. Hann skipuleggur æðisgenginn flótta frá skilyrtu samfélagi ásamt tveimur ungum sonum sínum. Hann ætlar að taka út ævisparnaðinn. Hann ætlar að brjótast inná Pradó listasafnið í Madríd og eyða einni nótt með listaverkum Goya. Synir hans vilja frekar fara í Disneyland, París.
Verkið dregur upp sterka mynd af manni sem öskrar á óréttlæti kerfisins. Örvæntingarfullt öskur runnið undan áhrifum efnhagskreppunnar og er verkið grimm gagnrýni á andvaraleysi nútímans. Einhversstaðar hlýtur að leynast boðskapur, siðferðislega sómasamlegur boðskapur, vel falinn, djúpt í hringiðu reiði sem vill brjótast út og segja okkur sögu. Sögu af aftengdum, miðaldra einstaklingi sem situr fastur í þjóðfélagi sem er andlega og efnislega gjaldfallið.
AÐSTANDENDUR
Leikstjóri: Una Þorleifsdóttir
Leikari: Stefán Hallur Stefánsson
Ljósahönnun: Magnús Arnar Sigurðarson
Þýðing: Stefán Hallur Stefánsson/Una Þorleifsdóttir
Framleiðendur: STuna/Brekidreki slf.
Meðframleiðendur: Þjóðleikhúsið/Act Alone
Þakkir : Eva Signý Berger, Magnús Þór Þorbergsson, Ari Matthíasson, Elfar Logi, Tinna Lind Gunnarsdóttir, Jói Kontrol, Guðmundur Erlingsson, fjölskyldur og vinir
HÖFUNDURINN
Rodrigo Garcia er argentínskur rithöfundur og leikstjóri fæddur 1964. Hann hefur búið og starfað í Madrid síðan 1986. Frá 1989 hefur hann starfrækt sinn eigin leikhóp, La Carniceria Teatro / Slátraraleikhúsið og notað hann sem vettvang fyrir tilraunakenndar leiksýningar og uppfærslu sínar i Frakklandi og á Spáni. Eftir hann liggur fjöldi verka þ.m.t. La historia de Ronald el payaso de McDonalds (The history of Ronald the McDonald’s clown, 2002); Compré una pala en IKEA para cavar mi tumba (I bought a spade at Ikea’s to dig my grave, 2003); Cruda. Vuelta y vuelta. Al punto. Chamuscada (Very Rare, Rare, Medium, Burned, 2007); Versus (2009) og Muerte y reencarnacion en un cowboy (Death and reincarnation as a cowboy, 2009). Ég kysi frekar að Goya héldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti var frumsýnt í Berliner Schaubühne árið 2011 og í Gate Theater í London árið 2014.
STEFÁN HALLUR STEFÁNSSON
Stefán Hallur útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2006. Hann hefur starfað með Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Vesturporti, Vér Morðingjum, Aldrei óstelandi, Sokkabandinu, ART í Bandaríkjunum og CDN Orleans í Frakklandi. Hjá Þjóðleikhúsinu hefur hann m.a. leikið í Um Það Bil, Karitas, Sjálfstæðu fólki, Fjalla-Eyvindi, Eldrauninni, Hreinsun, Heimsljósi, Lé konungi, Heddu Gabler, Íslandsklukkunni, Gerplu, Brennuvörgunum, Sumarljósi, Bakkynjum, Legi, Óhappi, Baðstofunni, Þeim ljóta, Macbeth og Sædýrasafninu. Stefán Hallur lék í Ofsa, Lúkasi og Sjöundá á vegum Aldrei óstelandi í Þjóðleikhúsinu, í Bastörðum hjá Vesturporti/LR, Stóru Börnunum og Hvörfum hjá Lab Loka, Enron hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Mojito í Tjarnarbíói, Ritskoðaranum og Hér & Nú hjá Sokkabandinu, Penetreitor og Bubba Kóngi hjá Vér Morðingjum, Afgöngum hjá Austurbæ og Woyzeck hjá Vesturporti. Stefán Hallur hefur leikið í kvikmyndum og sjónvarpi, meðal annars í Pressu, Jóhannesi, Desember, Roklandi og Djúpinu. Hann hefur tvívegis verður tilnefndur til Edduverðlauna, þrívegis til Grímunnar og er stundakennari við leiklistardeild Listaháskóla Íslands.
UNA ÞORLEIFSDÓTTIR
Una útskrifaðist sem leikstjóri frá Royal Holloway, University of London árið 2004 en hafði áður stundað nám í leikhúsfræðum og list við Goldsmiths College, University of London.
Í Þjóðleikhúsinu leikstýrði Una og var meðhöfundur að Konunni við 1000 Gráður sem hlaut Grímuverðlaunin fyrir leikrit ársins, Harmsögu (sem einnig var sýnd í Kennedy Center for the Performing Arts í Washington DC) og Um Það Bil sem vakti mikla lukku í vetur. Meðal annarra leikstjórnarverkefna Unu eru Nú er himneska sumarið komið eftir Sigtrygg Magnason, Óraland (samsköpunarverkefni m/Jóni Atla Jónassyni og útskriftarnemum LHÍ) og Bráðum hata ég þig í Nemendaleikhúsi LHÍ. Una var tilnefnd til Grímunnar fyrir leikstjórn sína á Um Það Bil.
Una starfar sem lektor og fagstjóri við sviðslistadeild LHÍ og er fastráðinn leikstjóri við Þjóðleikhúsið.
Sýnt í Kúlunni.