Ég býð mig fram
Ég býð mig fram / Sería 2 er listahátíð yfir eina kvöldstund þar sem listamenn þvert yfir listsviðið skapa sér hver sitt örverk. Í ár eru fjórtán höfundar. Listsviðið er breitt en listahátíðin er tilraun til að færa listsköpunina nær almenningi með suðupotti hugmynda úr ólíkum áttum, eins konar smáréttahlaðborði.
„Það er gjöfult að vinna þvert á listgreinar. Ég hef komist að því að rithöfunda dreymir á laun um að semja dansverk, myndlistarfólk vill búa til lifandi performans og dansarar þrá að fá að japla á góðum texta. Í raun hafa samræður mínar við listamennina snúist um hugmyndi rsem geta tekið á sig alls kyns myndir ef við leifum okkur að afmá mörk milli skapandi greina. Þannig hefur verkefnið ekki bara opnað heim minn og huga heldur hafa gestalistamennirnir komið sjálfum sér á óvart með því að láta gamla eða nýja drauma rætast.“
Ég býð mig fram / Sería 2 snýst um að brjóta niður veggi. Kasta sér út í alheiminn, sjá hvort hann grípur, kastar þér til baka eða fer með þig í rússíbanareið. Listahátíðin snýst um að koma saman, án fordóma, án landamæra, bara fólk að vinna saman. Hittast í miðju, teygjast, kuðlast eða móta hvort annað í stuttum þremur mínútum hvort sem þær verða enn fleiri í framtíðinni eða fyrstu og síðustu mínútur samvinnu þessara tveggja aðila.
Listrænn stjórnandi og leikstjóri listahátíðarinnar: Unnur Elísabet Gunnarsdóttir. Framkvæmdastjóri: Álfrún Helga Örnólfsdóttir. Ljósahönnuður og hljóðmaður: Hafliði Emil Barðason Ljósmyndari: Saga Sigurðardóttir Grafískur Hönnuður: Sveinbjörg Jónsdóttir Flytjandi: Unnur Elísabet Gunnarsdóttir Höfundar listahátíðar 2019: Almar Steinn Atlason, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Frank Fannar Petersen, Friðgeir Einarsson, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Helgi Björnsson, Ilmur Stefánsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Kitty von Sometime, Kristinn Arnar Sigurðsson, Steinar Júlíusson, Ólafur Darri Ólafsson, Ólöf Kristín Helgadóttir, Urður Hákonardóttir.
Listahátíðin hlaut styrki frá Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.