Dansar aðalhlutverk í Carmen
Dansarinn Emilía Benedikta Gísladóttir fer með aðalhlutverkið í uppsetningu dansflokksins Compañía Nacional de Danza á Carmen.
„Þetta er bara algjört draumahlutverk. Og sérstaklega gaman að túlka sjálfa Carmen hér á Spáni. Þetta er algjörlega stærsta hlutverk sem ég hef fengið,“ segir Emilía. Verkið verður frumsýnt í kvöld í Teatro de la Zarzuela í Madríd. „Ég hlakka rosalega til. Þetta er búið að vera mikið stress og ýmislegt sem hefur gengið á. En nú er bara að njóta,“ segir hún.
Mikið er lagt í sýninguna og prýða stórar auglýsingar með Emilíu strætóa og veggi í neðanjarðarlestargöngum Madrídborgar. „Þetta er svolítið fyndið, en ekkert yfirþyrmandi samt. Madríd er stór borg þannig að ég pæli ekkert í því þannig ef fólk þekkir mig. Fyrir mér skiptir meira máli að njóta þess að sýna verkið,“ segir hún. Eftir frumsýningu taka við tíu sýningar í Madríd, en hópurinn heldur svo í sýningarferð til Þýskalands og um Spán.
Emilía hefur verið búsett á Spáni í þrjú ár, þar sem hún býr með fjölskyldunni sinni; manni og syni. „Ég fór í prufur hjá dansflokknum fyrir þremur árum og komst inn. Okkur leist svo vel á að við fluttumst svo hingað og líkar vel.“